Morgunþáttur Ævars Kjartanssonar í morgun, Lóðrétt eða lárétt, var ákaflega ánægjulegur. Spurningar stjórnandans virtust byggðar á nokkurri þekkingu og greinilegum áhuga á efninu. Þá voru svör viðmælandans byggð á traustum grunni, mikilli þekkingu og rannsóknum á textum Gamla testamentisins, efninu sem fjallað var um. Það er ekki oft sem mönnum tekst svo vel að fjalla um leyndardóma Heilagrar ritningar í útvarpi að unun er á að hlusta. Það kemur þó fyrir.
Um langt árabil hef ég gagnrýnt guðfræðinga fyrir að skrifa bækur og ritgerðir fyrst og fremst fyrir aðra guðfræðinga, áhugalitlir um þennan svokallaða almenning. Skrifa sumir þeirra eingöngu á erlendum tungum og gefa út í ritröðum sem aðeins eru ætlaðar fræðimönnum á afmörkuðum sviðum. Það var því sérlega ánægjulegt að heyra í þættinum í morgun að út er að koma bók eftir viðmælandann, dr. Kristinn Ólason, bók sem skrifuð er með það í huga að ná til almennings.
Bók þessi ber heitið Verk handa þinna og fjallar hún um sköpunartexta og sköpunartrú í Gamla testamentinu. Hún mun koma út á vegum Grettisakademíunnar og Háskólaútgáfunnar og er önnur bókin í ritröð hennar. Þá kom fram í þættinum í morgun að Kristinn er einnig að skrifa bók um Jobsbók, það yndislega og sígilda verk Gamla testamentisins. Hefur hann til þess styrk frá Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands. Bókina um Job skrifar Kristinn með almennan lesanda í huga og eru það að sjálfsögðu mikil tíðindi.
Þegar ég segi mikil tíðindi, þá á ég við að þannig fram sett fræðimennska er einmitt það sem vantar sárlega í útgáfu á bókmenntum um trúarlega texta. Eiginlega finnst mér að guðfræðingar á Íslandi hafi alls ekki staðið sig nógu vel í þeim efnum, enda hjörtu þeirra gjarnan helguð öðrum fjársjóðum. Það er því vissulega bænheyrsla Guðs við okkur einfeldninganna þegar hann kallar fram nýtt fólk sem hefur áhuga á að hjálpa okkur inn í Orðið og þar með áleiðis til hans.
Það blása nýir vindar með þessum hópi sem stendur að Grettisakademíunni. Hópi ungra sérfræðinga í textum Heilagrar ritningar, sem tekið hafa sig saman um að miðla þekkingu sinni í ræðu og riti. Hefur Grettisakademían staðið fyrir ráðstefnum um ritningarnar og gefið efni þeirra út í Glímunni, óháðu tímariti um guðfræði og samfélag. Hafa þegar komið út tvö hefti hennar. Einnig er hægt að lesa Glímuna á netinu en hún er hýst hjá kistunni.is.
Bið ég, af veikum mætti, þessu unga áhugasama fólki blessunar Guðs.