„Ég get staðist allt nema freistingar.“ Í ævisögu Oscars Wildes segir höfundur hennar, Hesketh Pearson; „Ég ætla fyrst og fremst að leggja áherslu á kímni hans og gáska, því að það eru höfuðeinkenni Wildes, að minni hyggju, en ekki píslargangan.“ Þarna staldraði ég við. Orð eins og þessi leysa úr læðingi hugleiðingar um viðhorf fólks til lífsins. Í nútímanum er eins og allt eigi að vera skemmtilegt, hressandi og vekja hlátur. Áreynslulaust, alvörulaust án sársauka og þjáningar. En er lífið þannig í eðli sínu?