Blóðakurinn

Við vorum í sveitinni í gær. Það var fremur kuldalegt. Hafði snjóað um nóttina og því hvít þekja yfir landinu þegar við komum á fætur. En það var heiðskírt og logn og sólin, alltaf jafn vinsamleg, gerði gott úr öllu. Þá var kyrrðin í sveitinni alger og fátt sem hreyfðist utan gufumökkur sem steig upp af hverum í nágrenninu. Þar til lítil einkaflugvél rauf kyrrðina. Cessna Skyhawk.

Hún flaug lágflug yfir býlin fram með Síðufjallinu. Stór flokkur gæsa truflaðist á bökkum Hvítár og flaug upp. Vafalaust um hundrað gæsir, með tilheyrandi gargi. Þær fóru eins og ský um loftið, flugu allstóran hring og lentu síðan á akri í grenndinni. Við finnum til með þeim á þessum árstíma. Menn skemmta sér við að drepa þær. Heyrði af sælkeraveislu þar sem aðeins var boðið upp á marineruð gæsahjörtu.

Þá mátti lesa í blöðum fyrir skömmu að bændur leigðu akra sína gæsaveiðimönnum. Fyrir peninga að sjálfsögðu. Í fyrrahaust vorum við Ásta vitni að aðgerðum veiðimanna. Þeir komu um kvöld og dreifðu gervigæsum á einum akrinum. Mikil ljósadýrð bílljósa og ljóskastara fylgdi þessu og stóð undirbúningurinn yfir fram undir miðnætti. Við aftureldingu næsta dag kom gæsaflokkur fljúgandi yfir svæðið, flaug fyrst í hring, lækkaði síðan flugið og settist loks hjá gervigæsunum.

Plamm. Plamm, heyrðist af svæðinu. Skotmennirnir höfðu legið í felulitum í grennd. Gæsahópurinn flaug upp. Eitt gæsaparið var svolítið seinna fyrir. Þær flugu tvær saman í vesturátt. Plamm. Plamm. Önnur gæsin féll til jarðar. Hin snéri við á fluginu til að aðgæta hvað hefði komið fyrir félaga sinn. Flaug hring. Hikandi. Lækkaði flugið eins og í spurn. Plamm. Plamm. Hún féll einnig til jarðar. Við köllum skikann Blóðakurinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.