Með ullarlykt í nefinu

Við fórum í réttir í fyrradag, feðginin. Þverárrétt í Mýrarsýslu. Ég tók upp þennan sið fyrir fáum árum að fara í réttir og hugsa til baka. Fjörutíu til fimmtíu ár til baka. Það er sagt að gamlir karlar lendi í þessu. Á þeim tíma voru réttir öðruvísi. Þá var fleira fé og kannski færra fólk. Ekki gott að segja um fólkið. Ég spurði markasnillinginn, Ása á Högnastöðum, hvað féð hefði verið flest á hans dögum í réttinni. „Tuttugu og sex þúsund,“ sagði hann. „En núna?“ „Kannski sextán þúsund.“

Á þeim árum drógum við fyrir tvo bæi, Helgavatn og Guðnabakka. Það var mikil vinna. En menn voru stálslegnir og nutu puðsins og fólksins og stemningarinnar. Nú stendur maður inni í dilk og horfir á aðra puða. Í mesta lagi að maður opnar hlið þegar komið er með kindur. Og svo reynir maður að koma auga á andlit frá fyrri tíð. Þeim hefur fækkað mikið. Fyrir skömmu kvaddi Ólafur á Grjóti veröldina.

Ég sveif á Ólaf í réttunum fyrra og spurði hann hvort hann myndi nokkuð eftir mér frá fyrri dögum. Rifjaði upp einver atvik sem líkleg voru til að vera eftirminnileg. En karlinn horfði á mig, góðglaður, opinmynntur og tannfár. Þurrkaði með stórum klút tóbakslitaða sultardropa af nefinu. Horfði á mig rökum augum, skellihló svo og sagði: „Þú helvítis lýgur því.“

Fyrr á árum þekkti maður eða kunni deili á meiri hluta fólksins. Var eins og heima hjá sér. Nú eins og gestur. Hikandi. Kinkaði kolli ef maður sá svipmót sem líktist fólkinu á þessum eða hinum bænum. Sumir kinkuðu kolli á móti. Aðalsteinn á Arnbjargarlæk var réttarstjóri. Þá var þarna andlitssvipur frá Hamri, Höfða og Högnastöðum. Margir úr Stafholtstungum, þótt fleiri og fleiri hafi aflagt búskap þar. Sæunn á Steinum gefur það samt ekki eftir. Dregur af afli, hlægjandi og glaðvær.

Hvítársíðubændur voru þarna allnokkrir, hvort sem þeir eiga fé eða ekki. Við Gunný hölluðum okkur að Sámsstaðafólkinu, enda kunnug því fyrir frændsemissakir, en húsfreyjan á Sámsstöðum, Þuríður, og Ásta eru bræðradætur. Frá Hlöðutúni. Svo var það maðurinn sem kynnti mig fyrir dóttur sinni. „Hún er mikil pabba stelpa,“ sagði hann. „Eiginlega er hún eingetin.“ „Eingetin. Er það ekki flóknara fyrir karlmenn?“

Við Gunnbjörg yfirgáfum svæðið þegar einn innrekstur var eftir í nátthaganum. Ókum fram sveitina og ég nefndi bæina og atvik frá þeim. Loks ókum við niður Þverbrekkur og ég rifjaði upp. Var sumarstrákur á Svarfhóli fyrst 1948. Ellefu ára. Þá bjó Jósef þar og Jóhanna. Magnús og systur hans í Melkoti. Jóhannes á Flóðatanga. Séra Bergur í Stafholti, Karl á Hofstöðum og loks Einar á Hamraendum.

Það er fátt um búpening á engjunum nú. Áður voru þær lifandi og gróskumiklar, þaktar sauðfé, nautgripum og hrossum. Tímarnir eru breyttir. En Norðurá líður slétt og ljúfleg niður sveitina á milli bakka sinna og engja. Eins og áður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.