Nú er skáldsagnahátíðinni að ljúka. Ég fylgdist með álengdar. Blanda af hrifningu og tortryggni kemur í hugann þegar stórum messum er komið á fót og fjölmiðlar fylltir af fregnum af þeim. Tortryggnin tengist grun um að á bak við tjöldin leynist fyrirtæki sem hafa fjárhagslegan hagnað einan að markmiði. Það hlýtur því að hafa áhrif á val á höfundum og bókum. Og virðingin fyrir herlegheitunum á það til að skreppa saman líkt félaginn þegar vaðið er út í ískalt vatn.
Það er ekki nógu gott að láta aðra segja sér hvað maður skuli lesa. Hvað sé góð lesning og hvað slæm. Að endingu er það tíminn sem sker úr um hvað eru góðar bókmenntir og hvað slæmar. Þær góðu lifa þótt þær seljist aldrei með miklum hagnaði. Menn eiga að fá að finna út úr þessu sjálfur. Það hefði pabbi hennar Ástu Sóllilju gert. Einu sinni heyrði ég af konu sem skilaði miðanum sínum að leikhússýningu vegna lélegra dóma í blaði um sem leikverkið. Ég var hissa á ákvörðun konunnar. Það var eins og hún tryði því að þeir sem skrifi í blöð hafi óskeikult vit á hlutunum. Það hefur mér ekki virst.
Ýmsir hafa skrifað um þessa hátíð. Þá hafa og viðtöl verið birt við höfundana og gripið niður í bækur þeirra. Sumt af því er fróðlegt. Ég ákvað því að ná mér í bækur eftir tvo þeirra til að sjá með eigin augum. Þegar ég spurði um bók eftir annan þeirra var hún aðeins til á ensku, liðlega 600 síður. Ég nenni því ekki. Hinn höfundurinn sem ég spurði um, (ekki af því að kvenfólk er skotið í honum), hefur verið til á íslensku síðan1998. Fékk bók eftir hann á liðlega 900 krónur. Læt gott heita.
En spyr að lokum líkt og Jóhann Hjálmarsson: Er metsala bókar mælikvarði á bókmenntalegt gildi hennar?