Minnisstætt atvik frá fyrri árum vitjar mín. Mér var boðið í brúðkaupsveislu til ættmenna eiginkonu minnar, ásamt henni að sjálfsögðu. Að öllum jafnaði var ég feiminn í svona veislum. Kannaðist stundum við nokkra viðstaddra en þekkti eiginlega engan svo náið að ég gæti hallað mér að honum og komið af stað spjalli. Vissi og af fyrri reynslu að í svona veislum talaði fólk mest um sjálft sig og efni sem ég hafði hvorki vit né áhuga á. Þess vegna var ég einskonar hornreka þarna í félagslegu tilliti.
Eftir nokkra bið eftir brúðhjónunum, sem höfðu farið í myndatöku og kannski komið við heima hjá sér í leiðinni ?? var fólki boðið að gera svo vel og koma að löngu hlaðborðinu sem stóð á miðju gólfi og náði enda á milli í salnum og svignaði undan kræsingunum. Þeir veraldarvönu gengu hiklaust af stað og tóku sér diska og hófu að velja sér af óteljandi atriðum veislunnar og setja á diskana. Og skvaldrið magnaðist og sumir skellihlógu að einhverju sem þeir sögðu.
Ég fylgdist með fólkinu álengdar, brúðhjónunum, vinum þeirra og brúðarmeyjum og öðrum brúðkaupsgestum og undraði mig á hvað allir voru djarfir og frjálsir og skófluðu á diskana sína af þessum óteljandi fjölbreyttu réttum, sem voru í öllum regnbogans litum settir saman af kjöti og fiski og kartöflum í mús eða brúnuðum eða bökuðum og pasta og salati þetta og salati hitt, og tuttugu hliðarréttum öðrum í meðlæti og sósum og kremum, gulum, grænum og bleikum og bláum.
Svo stóð einn og einn veislugestanna upp og hélt ræðu og minntist góðra daga og fólkið sagði skál og allir voru svo ánægðir með sig og tilveruna. Þegar útlendingar fluttu ræður þurftu aðrir að túlka þá og stundum urðu túlkarnir svo hrifnir af útlistingum sínum að það tók langan tíma þangað til útlendingurinn komst að með næstu setningu.
Ég hætti því að hlusta og læddist að borðinu og reyndi að finna eitthvað að borða sem ég gat treyst að innihéldi ekki hvítlauk. Ég hef aldrei þolað hvítlauk. Né heldur fólk sem lyktar af hvítlauk. Valdi mér því flís af kjöti og vöðvaskífu af fiski og fór út í hornið þar sem ég hafði setið og nartaði í þetta. Ræðurnar héldu svo áfram og skvaldrið og fólk fékk sér aftur á diskana og aftur og þar kom að mér fannst andrúmsloftið mettast af hvítlaukslykt. Og þá fór ég út jafn hljóðlega og ég hafði komið. Heima hjá mér átti ég ágætan mat.