Hún hét Katrín, þessi ógnvekjandi óskapnaður sem flengdist yfir byggðir og ból við Mexíkóflóa og eirði fáu í heimi manna á allstóru svæði. Fólk stendur agndofa andspænis þessum ægilegu öflum náttúrunnar, öflum sem sýna hve menn, karlar, konur og börn og verk þeirra eru smá og varnarlaus, þegar kraftar jarðar magnast upp í æðsta veldi. Kraftar jarðar.
Þá vekur og undrun hve viðbrögð æðstu valdamanna í þessu mikla ríkjasambandi voru seinvirk og dræm, eins og þeir ættu erfitt með að skilja að slíkt gæti gerst í þeirra eigin landi. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þeir, valdsmennirnir, séu of hróðugir og þeim láti betur stríðsrekstur en björgunarstörf.
Frá því hefur verið greint að 80% íbúa New Orleans séu þeldökkir og að 40% af þeim þeldökku lifi undir fátæktarmörkum, sem hljómar afskaplega illa, þótt það komi ekki á óvart. Og grunur læðist að manni um að íbúar borgarinnar séu ekki í miklum metum hjá haukunum í Washington, (nema kannski í kringum forsetakosningar) sem berja sér á brjóst og herja á aðrar þjóðir af engu minni ofsa en Katrín.
Það er þetta með fólkið sem lifir undir fátæktarmörkum sem sækir á hugann. Hagfræði þjóðanna virðist gera ráð fyrir því að í hverju landi þurfi einhver ákveðinn fjöldi þegnanna að lifa undir fátæktarmörkum. Það er ekki auðvelt að átta sig á hvaða rök styðja þá stefnu. Í lífi venjulegrar fjölskyldu reyna þeir sem betur mega sín gjarnan að hlaupa undir bagga með þeim sem verr gengur. Og þá er ekki nóg að úthluta fólki andvirði fargjalds í strætó til að komast út í búð ef ekki fylgja peningar til að kaupa nauðsynjar.
Hagfræðin er greinilega engin venjuleg kerling og spurning hvort hún er nokkru mildari en Katrín mikla. Auðvitað er hún bara tæki til að stjórna auðmagni þjóða og veldur hver á heldur. Og þegar fræðimenn undirstrika niðurstöður sínar og segja: „Athugið að frjálshyggjan á það sammerkt með marxismanum að leggja ofuráherslu á hið efnahagslega.“ ( Stefán Snævarr. Ástarspekt. Bls. 180), þá situr maður uppi með allskonar spurningar eins og þessa til dæmis:
Hvað ætli margar milljónir íbúa Kína lifi undir fátæktarmörkum og líði skort til þess að efnahagsbyltingin, arður af vinnu milljónanna, geti safnast á fárra hendur og komið sér upp veglegum gullkálfi?