Við lestur á niðurstöðu úr verðkönnun ASÍ í liðinni viku, þar sem matarkarfan var dýrust í Hagkaupum, kom upp í hugann atvik sem átti sér stað á fyrstu árum Hagkaupa og verslunin staðsett í fyrrverandi fjósi við Eskihlíð, skammt frá Miklatorgi. Frumkvöðullinn Pálmi, var þá sjálfur í búðinni og kom á móti okkur Ástu og bauð fram aðstoð sína.
Erindi okkar var að kaupa fatnað á börnin okkar, fimm drengi og eina stúlku, sem voru með í för. Fötin áttu að vera til hversdagsnota en eins og allir vita þá slíta kraftmikil börn fötum hratt. Pálmi gekk um með Ástu og leiðbeindi henni af lipurð. Keypti hún nærföt og buxur og skyrtur og stígvél og sokka og allt þetta sem til þarf og fékk einhver ósköp fyrir peningana. Við vorum lukkuleg og þakklát fyrir góð verð. Þau lægstu sem þá þekktust.
Næstu árin bjuggum við í nágrenni Skeifunnar en í Skeifunni var verslun Hagkaupa þá staðsett. Arkaði Ásta þangað í hverri viku og keypti í matinn handa átta manna fjölskyldu. Og þótt það væri kannski ekki skemmtilegast að versla þar þá voru matarkörfur hvergi ódýrari. Einnig fannst okkur eins og að verslunin vildi viðskiptavinum sínum vel.
En nú er þetta breytt. Matarkarfan er dýrust í Hagkaupum, skv. könnun ASÍ, og ekki hægt að merkja af verðunum að verslunin vilji viðskiptavinum sínum vel. Það er eitt af tímanna sorglegu táknum.