Fimm sinnum hafði ég farið inn í bókabúðina og gengið umhverfis borðin og skoðað titla og kápur á efstu bókum staflanna. Sumar þeirra tók ég upp á leiðinni að þessari einu sem hugur minn sóttist eftir. Hún var ásamt fáum innan við afgreiðsluborðið, til hliðar við fjöldamenninguna. Falleg bók og hlaðin dýrlega vönduðum orðasamböndum. Ég tók hana ekki upp. Hún var of dýr fyrir mig.
Í næstu ferð gekk ég rakleitt að henni, skoðaði bækurnar umhverfis hana og snerti hana varlega með fingurgómi til að tengja ofurlítið. 4990. Það er of mikið, hugsaði ég og eins fór fyrir mér í næstu tveim ferðum. En mér tókst ekki að verða afhuga henni. Í fimmta sinn sem ég heimsótti bókabúðina, þá voru liðnar nokkrar vikur frá fyrstu heimsókninni, tók ég hana loks upp og sagði við hana um leið og ég lagði hana frá mér að hún væri of dýr.
Minntist og orða sem einhver hafði eftir Sókratesi hinum mikla, þegar hann gekk um markaði á götum Aþenuborgar og svaraði aðspurður: „Ég er að skoða hvað það er margt sem mig vantar ekki.“ Svo var það einn daginn, reyndar í dagslok, Ásta mín var að koma heim úr vinnu. Ég hafði eldað eina af uppáhaldsmáltíðum hennar og matarlyktin flæddi um íbúðina og hvolfdist á móti henni. Ásta andvarpaði í dyrunum, sársoltin eftir strangan dag.
Það er nefnilega hægt að tjá tilfinningar með því að gera góða máltíð og leggja hjarta sitt í öll atriði hennar, fyrir ástvin sinn og félaga. Það var lítið um samræður meðan borðað var. Einstaka unaðarhljóð og skilgreiningar á uppruna mismunandi bragða voru einu tjáskiptin. Svo að lokinni máltíð og hálftíma samræðum kom hún með lítinn poka og rétti mér. „Til þín,“ sagði hún.
Ég tók við pokanum, svolítið feiminn. Á auðveldara með að gefa en þiggja. En þarna var bókin komin, sú sem ég hafði heimsótt fimm sinnum í bókabúð Máls og menningar á Laugavegi og neitað mér um. Orðlaus og undrandi faðmaði ég konuna að mér, þurfti að halda lengi utan um hana til að fela viðkvæmnina sem næstum braust fram. Merkilegt hvað gjöf frá góðum vini getur verkað sterkt á gamla sál.
Bókin er Ljóðasafn Hannesar Péturssonar. Í henni eru öll ljóð Hannesar, auk Kvæðabókar. Hannes hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1993 fyrir bókina Eldhylur. Ég enda þennan pistil með litlu ljóði úr Eldhyl. Það gæti verið ort fyrir okkur hjónakornin:
Ljóð úr skógi
Nafnstafi þína
og nafnstafi mína
skárum við hlið við hlið í bjarkarbörk
á okkar fyrstu, gullnu
sumarferð saman …
horfðumst í augu
hlógum glöð, föðmuðumst.
Og andartakið var blóm
blindað af þyrstum fiðrildum.