Mannaði mig upp um hádegið, þrátt fyrir streymandi sólargeisla á svölunum, minnugur orða fisksalans í Skipholtinu um árið. Hann er svona fremur lágvaxinn maður, þybbinn, ber höfuðið hátt og hefur hvella rödd. Hann sagði, eftir að hafa rétt mér pokann með fiskinum; „…og þú ert fluttur í nýja íbúð?“ „Já, já.“ „Í blokk í Kópavogi?“ „Já.“ „Og allt alveg svakalega flott og notalegt?“ „Já.“ „Svo svakalega flott að þú ert hættur að nenna að fara út úr húsi.“ „Já, það er þannig.“
Þess vegna mannaði ég mig upp um hádegið í dag, þrátt fyrir streymandi sólargeisla á svölunum, minnugur orða fisksalans og ók vestur í Þjóðminjasafn Íslands til þess að sjá portrettmyndirnar hans Kristins Ingvarssonar ljósmyndara á Mogganum. Hann hefur átt aðdáun mína í mörg ár. Andlitsmyndir hans, svart / hvítar, eru öldungis sérlega fínar og flottar.
Þegar myndir birtast með viðtalsgreinum í Mogganum má yfirleitt þekkja þær úr sem eru eftir Kristin. Þær segja gjarnan sögu af einhverju sem blaðamaðurinn náði ekki að orða. Þannig geta ljósmyndir verið. Hjá snjöllum mönnum. Listaverk sem erfitt er fyrir venjulegan áhorfanda að lýsa af einhverju viti.
Ég gekk þarna um salinn, þar var fátt fólk, og hafði því næði til að tala við sjálfan mig upphátt, en það er afar nauðsynlegt til þess að tengjast viðfangsefninu. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvort einhver myndanna væri hugsanlega best. Sá að ef ég kysi eina þá mundi ég opinbera hve vitlaus ég er. Það freistaði mín samt. Fór fram í verslunina og bað Önnu Einarsdóttur, þessa sem var í Máli og menningu alla ævi en starfar nú einn dag í viku þarna, um autt blað. Hún alltaf jafn elskuleg fór í neðstu skúffu og dró fram A4.
Svo punktaði ég hjá mér tillögur um sjö myndir sem náðu framar öðrum til mín með áhrif sín. Eða þannig var það í dag. Elías Mar, sennilega flottasta myndin, þá Davíð Oddsson, Kjartan Ragnarsson, Louisa Matthíasdóttir, Sigurður A. Magnússon, Steingrímur St. Th. Sigurðsson og loks Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari. Það er ekki sniðugt að gera svona. Fór annan hring og byrjaði að efast. Ákvað samt að láta slag standa. Ein myndanna kom mér sérlega á óvart.
„Ein myndanna kom mér sérlega á óvart. “
Hvaða mynd skyldi það hafa verið ? : )