Viðstaddur brautskráningu kandídata við Kennaraháskóla Íslands, í gær, situr í huga mínum eitt og annað eftirtektarvert úr ræðu rektors skólans, herra Ólafs Proppé. Meðal annars sagði hann, nokkurn veginn svona, að ekki ætti að sinna kennarastarfi af trú eða tilfinningu, heldur með rökvísri hugsun, byggðri á þekkingu og staðreyndum. Einhvern veginn fannst mér notkun hans á orðinu „trú“ vera óþarflega víðtæk og bjóða upp á neikvæða ósamkvæmni.
Útskriftarhátíð
Það var sannkallaður hátíðisdagur hjá yfir fimm hundruð nemendum Kennaraháskóla Íslands og fjölskyldum þeirra, þegar brautskráning frá skólanum fór fram í Haukahúsinu í Hafnarfirði í gær. Mikill mannfjöldi var þar samankominn og salurinn í þessu risastóra húsi þéttsetinn. Eftir setningu hátíðarinnar söng Diddú tvö lög af sinni alkunnu snilld. Síðan flutti rektor skólans, Ólafur Proppé, ávarp.