Jói

Anno 1945.
Jói var bílstjórinn á staðnum. Stundum, þegar hann var sendur í kaupstaðinn til að útrétta, leyfði hann krakkahópnum að sitja í. Það var mjög vinsælt og vildi enginn missa af ferðinni. Eitt skiptið var Jói sendur í veg fyrir rútuna Reykjavík- Hellukot, en von var á vistmanni með henni. Jói hóaði krökkunum saman, þeir voru fimm eða sex, og bauð þeim með.

Bíllinn var einskonar kassabíll með hurð aftan á. Jói hjálpaði krökkunum inn í hann að aftan. Skafti, lítill grannur níu ára strákur, var seinn fyrir og kom hlaupandi í áttina að bílnum í þann mund sem Jói settist undir stýrið. Þegar Skafti var um það bil kominn að bílnum, móður og másandi, ók Jói af stað. Skafti stansaði og beygði af. Jói stöðvaði bílinn eftir svo sem fjörutíu metra akstur. Skafti hljóp af stað í átt að bílnum. Þegar hann var kominn langleiðina að bílnum aftur ók Jói enn af stað og nú nokkru lengra en í fyrra skiptið. Þá snéri Skafti við, sprengmóður, og fór að gráta og gekk til baka í átt að búðunum.

Jói snéri bílnum við og ók á eftir Skafta. Kom svo skelli hlægjandi út úr bílnum og vildi gera gott úr öllu. Skafti var særður og niðurlægður og kom ekki upp orði fyrir ekka. Hann hélt áfram til búðanna. Jói vildi ekki að hann yrði uppvís að hrekknum, vissi að pabbi Skafta var ekkert lamb að leika við og til alls vís ef gert var á hlut drengsins hans. Jói lagði sig því allan fram um að tala Skafta til. Sem honum tókst eftir langt þóf.

Anno 1957.
Hásumar. Laugardagskvöld. Múgur og margmenni var á planinu framan við veitingaskálann austan við gömlu Hvítárbrúna hjá Ferjukoti. Gleði og kátína lá í loftinu. Allir töluðu við alla. Auglýst var ball í Ölveri. Þangað lágu leiðirnar. Skafti var bílstjóri hjá vinum sínum. Ók Bens. Hann lagði bílnum og farþegar hans blönduðust fólkinu. Allt í einu kom Skafti auga á Jóa. Dökkklæddan og feitlaginn. Hann var í litlum hópi. Skafti gaf sig á tal við hann og rifjaði upp daginn góða. Jói hló. Sagðist bara hafa verið að gantast. Skafti talaði við hann á léttum nótum og bauð honum að skoða bílinn sem hann ók. Allir dást að Bens. Svo bauð hann Jóa að setjast inn. Jói gat ekki leynt aðdáun sinni og strauk yfir mælaborðið. Skafti settist undir stýrið og ók af stað.

Á mikilli ferð þaut bíllinn um malarvegina og rykmökkurinn lyftist hátt og hékk lengi yfir veginum. Það var logn. Skafti ók fram Lundareykjadal. Þegar fram fyrir Brautartungu kom versnaði vegurinn og enn verri var hann yfir Uxahryggi. Skömmu áður en komið var að Kaldadalsleið stansaði Skafti bílinn og steig út. Það gerði Jói einnig. Engin orð höfðu verið sögð. Jói kveikti í sígarettu. Fór út í vegkant og pissaði. Skafti snéri bílnum við á meðan, rólega. Ók síðan tvö hundruð metra og stansaði þar. Jói gekk ólundarlega í áttina að bílnum. Þegar hann átti skammt eftir að bílnum ók Skafti aftur af stað. Þrjúhundruð metra. Jói kjagaði í áttina til hans. Þegar hann var kominn svo sem hálfa leið að bílnum gaf Skafti í og stansaði ekki fyrr en við skálann austan við gömlu Hvítárbrúna hjá Ferjukoti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.