Það var mikil stemning og baráttuandi í fólkinu þegar kröfugangan lagði af stað frá Iðnó í Vonarstræti. Pabbi lét okkur bræðurna bera fána þótt við værum bara litlir strákar og ég varla fánafær. En Steindór bróðir hafði gaman af þessu. Við höfðum heyrt ýmsar sögur af kúgun verkalýðsins en amma okkar, Hreiðarsína Hreiðarsdóttir, hafði verið framarlega í flokki í verkalýðsbaráttunni. Pabbi var einnig ákveðinn verkalýðssinni og fór Lúðrasveitin Svanur, sem hann hafði stofnað, gjarnan fyrir kröfugöngunum á degi verkalýðsins.
Ein af frásögunum sem við höfðum heyrt var um það að á atvinnuleysistímum, fyrir stríð, hafi þeir verkamenn einir fengið vinnu á daginn sem voru fúsir að vinna yfirvinnu launalaust. Nú skyldi maður ætla að slíkir tilburðir heyrðu sögunni til, en dæmin sýna samt að enn er verið að svindla. Við heyrum af útlendum verkamannaleigum sem gera íslenskum atvinnurekendum kleyft að ráða menn til starfa á miklu lægri launum en íslenskir samningar kveða á um.
Þegar við bræðurnir, síðar, fórum að bera okkur eftir vinnu, lærðum við fljótlega að í verklýðsfélögunum ríkti tvöfalt siðgæði, að okkur fannst. Við fengum ekki vinnu nema við værum í verkalýðsfélagi og þegar við svo gengum í verkalýðsfélag þá fengum við aðeins hálfa aðild og þar með ekki kosningarétt. Þetta fannst okkur skítt og misstum fljótlega áhugann á þátttöku í baráttunni.
Í bók Gylfa Gröndal, Fólk í fjötrum, má lesa um baráttuna fyrir betri kjörum. Á einum stað er haft eftir Hreiðarsínu: „…Veturinn 1915-1916 vorum við svo óheppnar að þegar vaskið hófst gerði fimmtán stiga frost og fraus þá illa á körunum. Ísinn, sem við þurftum að brjóta áður en vaskið gat hafist, var 1-1.5 sentímetra þykkur á morgnanna. Það var helst að blessað kaffið héldi í okkur lífinu. Kanna var hituð á plötu yfir koksofni og annan hvern klukkutíma var okkur færður ofurlítill kaffisopi. Aðbúnaður á vinnustað var einkamál útgerðarmannsins. Vanhús var ekkert nema fjaran.“
Laun kvenna voru 15 aurar á tímann.