Sumardagurinn fyrsti og enginn snjór. Ánægjulegt. Vorið tók vel á móti okkur á tónleikum hjá Skagfirsku söngsveitinni í Langholtskirkju undir stjórn Björgvins Þ. Valdimarssonar og píanóundirleik Dagnýjar Björgvinsdóttur. Kórinn er greinilega í framför. Hljómaði betur en í fyrra. Hafði og frábæra einsöngvara með sér. Tónleikarnir hófust með hinu kunna lagi Á Sprengisandi. Hafði það verið vinsælasta lag kórsins í Kanadaferð hans á síðasta ári. Kirkjan fylltist strax af söngkrafti og sönggleði.
Gömbu tónleikar
Sjaldan hafa tvær klukkustundir í tónleikasal verið jafnfljótar að líða. Því var líkast að maður væri nýsestur þegar komið ver hlé. Og eins var með seinni hlutann. Óskaplega falleg tónlist, fáguð og fínleg. Leikin voru verk eftir höfunda sem voru uppi fyrir þrjú til fjögur hundruð árum. Gibbons, Locke, Purcell. Eftir hlé voru verk eftir meistara Bach. Þetta var í Salnum í Kópavogi.
Vika bókarinnar. Fjórði hluti
Fór loks í gær í búð og keypti smásögur Hemingway´s í annað sinn. Þessar sem komu út fyrir jólin. Þá þurfti ég að fara þrjá daga í röð í bókabúð til að eignast hana. Það var tíminn sem það tók útgefendur að koma henni í verslun eftir að þeir sögðu hana komna í búðir. Bókin heitir Snjórinn í Kilimanjaro og fleiri sögur. Hún er þýdd af Sigurði A. Magnússyni. Listavel.