Margar af þeim bókum sem komu mér á lagið með að lesa, þegar ég var barn og unglingur, eru löngu horfnar úr safninu. Ástæður fyrir því eru vafalítið margar. Þá helstu tel ég þó vera stjórnleysi sem plagaði persónuleika minn á árunum þeim. Auðvitað vildi ég vel en hafði ekki staðfestu til fylgja því eftir. Þessu hafði faríseinn Sál frá Tarsus lent í fyrir margt löngu og orðaði þannig í bréfi: „ Það góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“
Þegar verst gekk neyddist ég til að borga skuldir með bókum. Það var nístandi sárt og framkallar enn angistartilfinningu og blygðun. Og öll slík glöp koma til manns aftur og aftur og kremja mann því meir sem aldurinn færist yfir. En líknin í ringulreiðinni felst í því að eiga tungumál, en tungumál er safn orða og orðin eru bygging hugsunar. Mörg hugsun býr yfir lausn á vanda. manna og þau má einmitt nálgast á bókum. Það er því stórkostlegt og dýrmætara en við blasir í daglegu amstri að hafa aðgang að bókum á því eða þeim tungumálum sem maður ræður við.
Í bækur er hægt að sækja um það bil allt sem hugurinn girnist. Þar á meðal visku og eggjan. Þegar Aurelius Augustinus var 19 ára las hann bók eftir Ciceró, bók sem kveikti með honum þrá eftir andlegri fullnægingu. Andlegs þroska í stað nautna og frama. Og síðar skrifaði hann: „…svo að mér yrðu minnisstæð áhrif þeirra á mig og ég mætti síðar þegar bækur þínar hefðu tamið mig og læknishendur þínar grætt mig, greina og skilja muninn á því að státa og játa, muninn á þeim, sem sjá, hvert stefna skal en vita ekki veginn, og á veginum, sem liggur til þess sæla föðurlands, sem oss er ekki aðeins ætlað að eygja, heldur byggja…“(Ágústínus. Játningar. Sjöunda bók XX)
Eins og við blasir þá er ég að reyna að ræða um bækur og áhrif þeirra. Ég ætla að enda pistilinn á því að vitna í Voltaire og þá frægu setningu sem bókin hans um Birtíng endar á. Þegar ég tók hana fram og fór að blaða í henni komst ég að þeirri niðurstöðu eitt sinn enn að hún er afar skemmtileg bók. Enda spyr Þorsteinn Gylfason í formála hennar: „Skyldi vera til skemmtilegri bók en Birtíngur?“ Og svarar sjálfur: „Líklega ekki.“ Bókin endar á hinum fleygu orðum Birtíngs, þar sem hann er að borða sykrað súkkat og hnetur. „…en maður verður að rækta garðinn sinn.“
Sykrað súkkat og hnetur. Þetta er skemmtileg ljóðræna og minnir á orðin um safaríkan heim.
Til hamingju með gullfallega síðu!