Þegar ég les um það að vika bókarinnar standi nú yfir, þá lyftist örlítið á mér brúnin. Það gerist þótt hún hafi verið sígin síðustu daga vegna vanheilsu í kroppnum. Alltaf er það gleðiefni að heyra umræður um bækur og orðin sem í þeim standa og hugsunina á bak við orðin. Blað allra landsmanna leggur sig fram um að fjalla um bækur og þættir heyrast í útvarpi og allt er það hluti af veislu fyrir þá sem eiga bækur fyrir vini.