Stundum heyrir maður orð sem skera sig úr í orðaglaumi hversdagsins og fá mann til að staldra við. Í dag hafa orð tveggja merkiskvenna gefið ástæður til að velta orðum þeirra fyrir sér. Í hádeginu var í Rúv. viðtal við frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, í tilefni af sjötíu og fimm ára afmæli hennar. Hún endaði samtalið með því að segja að „hún ætti stóran heim inni í höfðinu á sér.“
Þetta var vel sagt og ég þóttist skilja að hún talaði um það sem henni fannst vera hin dýrmætustu verðmæti. Þá lýsa og orð hennar því hve nauðsynlegt er fyrir fólk að geta menntast, geta lært tungumál og fá tækifæri til að ferðast og hafa möguleika á að vera með fólki í öðrum löndum. Kynnast heiminum, kynnast þjóðunum og kannski ekki síst að geta frelsast frá því almenna íslenska viðhorfi að Ísland sé nafli alheimsins.
Hin orðin mátti lesa í Morgunblaði dagsins og eru höfð eftir Margréti Þórhildi Danadrottningu. Þar segir: „„Það má vissulega segja margt gott um það fólk, sem hefur trúna að leiðarljósi frá morgni til kvölds, frá vöggu til grafar. Þannig er það líka með margt kristið fólk.“ …en hún fordæmir jafnframt trúarofstæki.““ Þessi orð vekja til umhugsunar eins og orð Vigdísar vekja til umhugsunar. En orð kvennanna lýsa miklum andstæðum.
Orð Vigdísar lýsa hugsun sem hefur opnað faðminn og reynt að ná utan um alla menn í öllum þjóðum. Hugsun sem skilur að aðrir eru til og eiga sama rétt á jörðinni og allir hinir og þurfa að leggja sig fram um að kynnast og tengjast. Orð Þórhildar lýsa aftur á móti hugsun fólks með öndverð viðhorf. Hugsun sem ekki opnar faðm sinn fyrir öðrum, heldur lifir í ofstækisfullu þröngsýnu andrúmslofti, þótt það telji sér trú um að það hafi einhverskonar trú á einhverskonar Guð að leiðarljósi.
Og manni verður á að hugsa til Guðs, hvort hann hafi haft lítinn eða stóran heim í höfðinu þegar hann tók sig til og skapaði. Er það ekki vert umhugsunar?
Hér gætir nokkurs misskilnings. Ég er að taka undir með Þórhildi drottningu þar sem hún fordæmir ofstæki og þröngsýni og sýnist mér að ekki þurfi endilega íslam til, eins og dæmin á okkar landi sýna.
Jú þetta er vísast rétt. En Þórhildi til varnar get ég bent á að Danir hafa orðið að kljást við ansi hreint erfið og flókin vandamál tengd samneytinu við ólíka menningar og trúarheima. – Hitt er annað að friðsældin í Vigdísi er aðlaðandi.