Maður brýnir mann, segir í helgri bók. Víst er það svo. Hef ég notið þess við fátæklega bloggtilburði mína að fá hvatningu frá ýmsum vingjarnlegum lesendum pistlanna og að sjálfsögðu einnig vina minna og félaga. Helsta hvatningin um tæknimál og þróun heimasíðunnar hefur komið frá Brynjólfi Ólasyni sem er ákafur áhugamaður um heimasíðugerð og aðrar lausnir í slíkum málum. Kann ég ekki einu sinni að nafngreina fyrirbærin.
Eftir hvatningu Brynjólfs hef ég nú fengið umráð yfir léni. Í framhaldi af því setur Brynjólfur upp nýja heimasíðu fyrir mig með slóðinni: www.oliagustar.is. Þessi nýja heimasíða býr yfir fleiri möguleikum en sú fyrri eins og væntanlega mun koma í ljós. Mun hún hefja göngu sína á næstu dögum. Þá hefur nýtt netfang, sem tengist léninu, verið stofnað: oliagustar@oliagustar.is. Bið ég vini mína um að breyta þessu hjá sér við fyrsta tækifæri. Fyrra netfangið verður ekki lengi í gildi.
Frjáls og óháður? Sú spurning hefur sótt að mér undanfarið. Getur einstaklingur náð því markmiði. Það hefur tekið mig nokkurn tíma að samhæfast hugsuninni. Kannski er það af meðfæddu kjarkleysi. Minnist sundnáms míns vestur í Sælingsdal, þá átta ára. Konan sem kenndi sund gerði allt sem hún gat til að hvetja mig og auka sjálfstraust mitt. Eftir að hún náði að taka af mér korkinn og síðar kútinn, lét hún mig elta endann á langri bambusstöng sem hún hélt á. Þannig kom hún mér út í miðja laug. Hún lofaði að draga stöngina ekki að sér. Sem hún gerði samt einn daginn. Og þá uppgötvaði ég að ég gat synt. Frjáls og óháður.
Núna, sextíu árum seinna, koma upp í hugann orð Qohelet´s um vondu dagana: „…þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir….“ Hvað um það. Við stöndum á meðan stætt er og reynum að halda í þá vini sem enn gefa færi á sér. Og þökkum sundkennurum harðýðgina sem gerði okkur frjálsa og óháða.