Mín orð eru orð almúgans. Setningin er skrifuð undir áhrifum frá Walt Whitman. Sumt sem hann segir vekur áhuga. Á ekki að orða það þannig? Whitman stillir sér upp hjá sjálfum sér: „Ég fellst á veruleikann, og dirfist að draga hann í efa, / Frá upphafi til enda gegnsýrðan af efnishyggju.“ Og síðar: „Orð mín taka síður til eigna og eiginleika, heldur minna þau á líf sem er óskráð, á frelsi og lausn úr vanda, …“ (Söngurinn um sjálfan mig. Kafli 23)
Orðin almúgi, frelsi og lausn úr vanda, grípa hugann samstundis. Ekki ólíklegt að það stafi af upprunanum. Almúgi. Orðabók Eddu segir um það: „al múgur, alþýða, almenningur, /…almúgamaður úr alþýðustétt.“ En um alþýðustétt segir hún: „…samfélagsstétt alþýðu eða almúga.“ Margir telja hollt og gott fyrir hvern og einn að vita nokkurn veginn af hvaða rótum hann eða hún eru vaxin.
Man eftir viðtali í sjónvarpi við rithöfund nokkurn. Hann tók svo til orða að hann væri af lágstéttum kominn en hefði unnið sig upp í æðri þjóðfélagsstiga með skrifum sínum. Þessi orð lýsa hégómaskap og uppskafningshætti en sýna jafnframt að með mörgum einstaklingi leynist dulin þrá til að viðra sig upp við svokallað „fínt fólk“. Spurning vaknar: Hvaða fólk er fínt fólk? Ósjálfrátt fékk ég andúð á rithöfundinum og missti áhuga á bókum hans.
Samfélagsstétt alþýðu og hinir. Almúginn og yfirstéttin. Á þessum dögum fer ekki mikið orð af almúganum. Alþýðunni. Í fjölmiðlum fær hann ekki mikið rúm. Í stjórnmálum ekki heldur. Hvað þá á peningamarkaði. Flestir sem hafa aðstöðu til að tjá sig um menn og málefni opinberlega virðast fremur kjósa að eyða afli sínu á önnur viðfangsefni. Gleyma uppruna sínum og þykjast vera eitthvað fínt. Nema í kringum kosningar. Hvort heldur er til alþingis eða bæjarstjórna. Þá syngja kórarnir texta um fátæku ekkjurnar og einstæðu mæðurnar.
Það er eflaust ekki heiglum hent að stilla sér upp hjá sjálfum sér. Fólk hefur tilhneigingu til þess að ganga í augun á öðrum. Kemst og ekki af án annarra. Verða því að gefa eftir af sjálfum sér til að falla þeim í geð. Orð Prédikarans koma óneitanlega upp í hugann hjá vikusál þessarar viku: „Aumasti hégómi, allt er hégómi.“