Ritningin, mest bóka, segir frá hinum stórkostlegasta atburði, holdtekt Spekinnar, Orðsins, og innkomu þess í heim mannanna. Hinn fátæklegi og einfaldi umbúnaður sviðsins undirstrikar hvar hina sönnu Speki er að finna og hvað Viskan hefur ólíkt eðli og yfirbragð heims mannsins, hvar oflæti, hégómi og hismi eru í hávegum höfð.
Hugmyndir nútímafólks um jól og jólahald eru komnar svo langt, langt í burtu frá markmiði Spekinnar að það hljómar nánast eins og skrítla að tengja það tvennt saman. Og þau koma því óneitanlega upp í hugann orð Qohelets um hégómann sem og orð Lao Tze um rykið. En uppþyrlað ryk verslunar og viðskipta byrgir mönnum sýn á önnur verðmæti en þau sem fást fyrir peninga.
Þegar Spekin tók sér bústað í manni gerði hún það í því markmiði að lækna, hugga og græða. Fátæka, einfalda og særða. Guð vildi mönnum vel. Eðli hans er elska og af ástríðu hennar leitaði hann þeirra fyrst sem verst stóðu. Í öllu rykinu. Nú á dögum á Spekin erfitt með að koma sér á framfæri. Umboðsmenn hennar hafa fallið fyrir glysi og glaumi. Því miður. Og misst sjónar á þeim sannleika sem lagður var í jötuna í Brauðhúsum.
Og því er hægt að taka undir með höfundi Ljóðaljóðanna sem segir m.a: „Segðu mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú fé þínu til beitar, hvar hvílist þú um hádegið? Hví skyldi ég reika um hjá hjörðum félaga þinna?“
Óska ég öllum kærum vinum mínum og gestum heimasíðunnar innilega gleðilegra jóla.