Fór í fiskbúðina í gærmorgun. Vildi vera snemma í því. Lyktin kom á móti mér út í bíl. Hún lofaði góðu. Fleiri voru að koma að. Karlar á efri árunum. Sumir svo haltir að þeir komust varla frá bílunum sínum. Einn svo slæmur að hann gekk út á hlið. Svo voru aðrir eldhressir og geystust yfir bílaplanið. Þarna voru líka konur. Ein í pels. Dálítið þóttaleg. Inni í búðinni var þröng.
Afgreiðslumennirnir voru tveir. Annar hávær og glaðbeittur. Hann lagði sig fram um að fá fólk til að kaupa tindabikkju. Hélt einni upp og sagði miklar sögur af Ísfirðingum sem hefðu tekið tindabikkjuna langt fram yfir skötuna. Þá sagði ein konan að hún væri nú frá Ísafirði og hún hefði aldrei séð tindabikkju á borðum. „Þar lá ég í því,“ sagði afgreiðslumaðurinn og hló svakalega, „þessu var búið að ljúga að mér.“
„Hvað þarf ég mikið handa átta?“ spurði önnur kona, „ég ætla að gera stöppu. Hún er svo vinsæl hjá mínu fólki?“ „Mikið?“ hrópaði afgreiðslumaðurinn, „þú þarft þrjá svona og einn svona,“ sagði hann og tíndi stór stykki á vigtina. „Er það ábyggilega nóg?“ spurði konan. „Fáðu þá bara eitt stykki í viðbót,“ sagði afgreiðslumaðurinn, „ert þá alveg ofaná.“ Á öðrum stað var náungi að biðja um hnoðmör. „Hnoðmör?“ hermdi einhver eftir honum. „Er það ekki einum of mikið?“
„Næsti?“ kallaði háværi afgreiðslumaðurinn. Eldri maður gaf sig fram. „Ég verð að fá svolítinn saltfisk líka, krakkarnir borða ekki skötu.“ Næstur var stór maður með grátt alskegg. „Þrjú kíló,“ sagði hann. Bætti svo við: „Þrjár dósir tólg. Rúgbrauð.“ „Fleira?“ spurði sá háværi.“ „Nei, takk.“ „Það gerir fjögur þúsund kallinn,“ sagði sá háværi. Fólk streymdi að. Og frá. Bílar fóru og bílar komu. Innan úr búðinni heyrðist hvellt: „Næsti.“