Við vorum samtíma á flugnámskeiði. Námum til réttinda einkaflugmanns. Ýmsir mætir menn tóku þátt. Eitt skiptið kom einn nemanna rakur í tíma. Við vorum í sal vestur í Háskóla Íslands. Tíminn varð öðruvísi vegna kennderís þessa nema. Hann var um fertugt. Fór með ferskeytlur af ýmsum toga. Ýmsir lögðu vísu í púkkið. Mér varð á að fara með línu úr Einari Ben. ,,- Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest…”
Þá varð sá kenndi ókvæða við. Sagði: ,,Það er alveg magnaður andskoti, að alltaf þegar Íslendingar vilja sína hve stórbrotnir þeir eru, þá vitna þeir í Einar Ben.” Ég horfði á manninn alllengi. Velti því fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við honum. Átti ég að segja ,,það er alveg laukrétt hjá þér, vinur, ljóta dellan það,” eða átti ég að koma á móti honum. Sagði loks: ,,Til þess að fara með Einar Ben. þurfa menn að hafa lifa svipaða dulúð og hann hefur lifað og finna fyrir samsömun við reynslu hans.
Og hvað þessar línur varðar, þá verða menn að hafa búið við kjör sem þrengdu að þeim. Andleg og veraldleg. Þeir verða einnig að þekkja þá nautn sem flest í því að eiga hnakk og eiga hest og vita hvílík frelsandi nautn er í því fólgin að leggja hnakk á hest og stíga á bak og ,,hleypa á burt undir loftsins þök.” Þeir sem eitt sinn upplifðu þá frelsandi vængi sem sú athöfn veitti sál og anda, verða aldrei jafnir og áður.
Og það er vegna þess að : ,,Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist, ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist við fjörgammsins stoltu og sterku tök.” Þetta ættir þú að leggja þig fram um að læra og þá yrði líf þitt vafalítið ánægjulegra.”” Maðurinn þagði við. Sagði síðan: ,,Ég smíða mér sjálfur mína eigin vængi. Og þegar ég hef lokið þessu námskeiði mun ég fljúga á mínu eigin fleyi og svífa um loftsins hæðir og lægðir. Hvað sem Einari Ben. líður.”
Hálfu ári seinna hafði ég verið hlunnfarinn við kaup á hlut í flugvél. Skurðlæknir og framkvæmdastjóri í fiski höfðu af mér hlutinn með því að láta falsa nafn mitt undir afsal. Ég hef lifað það af þótt sárt væri. Samnemandi minn, sá sem kenndur var eitt kvöld á flugnámskeiðinu, lauk við að smíða sitt fley. Svo sorglega tókst til að hann og vélin hans fórust í jómfrúrferð sinni.
,,…Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.-
Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann ríki og álfur.”
Eitt andsvar við „Hýstu aldrei þinn harm“