Hjartastaður

Morgunbænin í útvarpinu er vinsæl hjá okkur hjónunum. Við hlustum á hana flesta morgna. Hún hefst yfirleitt á öðrum kaffibolla. Í morgun fór séra Auður Eir með trúarorðin. Ég seigi trúarorðin, því að af mæli hennar merkist að hún á hlutdeild í þeim Guði sem veitir blessun þeim sem vilja þiggja hana af honum. Það er eins og hún tali af hjarta fram. Og einmitt þannig orðaði Goethe þetta í stórverkinu Faust: „En hjörtum fer aldrei orð á milli, sem ekki er runnið úr hjartastað.“

Það er dálítið merkilegt að fylgjast með þeim guðfræðingum sem koma í útvarpið og flytja svokallaðar morgunbænir þar. Oftar en ekki saknar maður trúartónsins. Meiri hlutinn heldur sig við ritúalið og minnir gjarnan á vatnshrædda sundnema sem fara ofaní laugina með kút og kork og sleppa samt ekki bakkanum.

Orð Auðar Eir í morgun urðu til þess að við Ásta rifjuðum upp fyrstu kynni okkar af trú með lífi í. Almennt kölluð lifandi trú. Guðni Markússon, (1893-1973), trésmiður og bóndi í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð, sagði aftur og aftur við okkur: „Treystið Drottni.“ Mér fannst ekki mikil skynsemi í slíkum yfirlýsingum. En þetta var sannfæring Guðna. Trúarvissa hans og einlægni höfðu áhrif og náðu til okkar.

Þegar ég segi, náðu til okkar, þá á ég við að út á orð hans gáfum við Guði færi. Leyfðum honum að spreyta sig á að glíma við margra ára trúarhöfnun mína. Ágústínus kirkjufaðir segir frá glímu sinni í Játningum. Þar ræðir hann við Drottin og segir meðal annars: „Bólginn hroki minn skildi mig frá þér og blásnir gúlar byrgðu mér augu.“

Þessu er nefnilega oft þannig varið að stórlæti mannsins byrgir honum sýn. Stórlæti, hroki, sem oftar en ekki er einhverskonar varnargervi þess sem ekki hefur þrek til að vera hann sjálfur. Þetta kemur gjarnan í ljós þegar sjálfið verður fyrir alvarlegum áföllum. Þá berst maðurinn um, „eins og fugl í neti fangarans,“ og hrópar upp, í átt til himinsins, á þann Guð sem, þrátt fyrir allt, býr „hið innra“ í hjarta hvers manns, reiðubúinn að blessa hann. Og blessar hann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.