Alþingi kom saman í gær. Ekki fór það fram hjá neinum. Fjölmiðlafólk drekkur í sig orð og athafnir alþingismannanna. Og blæs upp. Og út. Þingfréttir fá alltof langan tíma og fréttatímar verða afspyrnu leiðinlegir. Það væri ekki úr vegi að útvarp og sjónvörp hefðu sérstakan tíma fyrir þingfréttir. Til dæmis eins og gert er með veðurfréttir. Eða dánartilkynningar.
Ekki lofaði þetta upphaf þingsins góðu fyrir venjulegt fólk. Vinstra liðið gekk úr sal undir ræðu þingforseta. Þeim var svo svakalega misboðið. „Er hann ekki forseti okkar allra?” spurði einn sármóðgaður. Hann spurði ekki um það í sumar þegar forseti lýðveldisins setti allt á annan endann. Ekki skil ég hverja svona leiksýningar, eins og þessi útganga, eiga að heilla.
Fyrir nokkrum árum spurði fréttamaður kunnan einstakling að því, skömmu eftir kosningar þar sem ríkisstjórnin sigraði með einhverjum mun, hvað ylli því að stjórnarandstaðan næði svo litlum árangri. Og sá sem spurður var svaraði: „Ég held að það sé, að hluta til, vegna þess að þeir hafa ekki nógu frambærilega menn.” Þetta rifjaðist upp undir útsendingu frá setningu Alþingis í sjónvarpinu.