Það er þannig með rakarann minn, (getur maður sagt minn? ). Nei. Ég byrja aftur. Það er þannig með rakarann sem klippir mig þessi árin, – ég segi þessi árin því að mér hefur ekki haldist vel á rökörum. Sumir sögðu að ég væri með erfiðari viðskiptavinum og hættu í iðninni. Kona, rakari, sem mér líkaði svo ágætlega við af því að hún klippti mig þegjandi, hætti að klippa eftir tæpt ár og gekk í hjálparsveitir erlendis. Einn bilaði á geði og varð óvinnufær. Annar hætti og ákvað að láta eiginkonu sína vinna fyrir sér.
Það liggur auðvitað fyrir að menn eru ekki alltaf í skapi til að tala. Geta verið málefni sem manni leiðast. Til dæmis um mann sjálfan og atriði sem öðrum koma ekkert við. En það eru líka til menn sem leysa sálarhnútana (fýluna) í manni með glettni, góðu skapi og góðum vilja. Og það er meira að segja til í því að maður gangi léttari í spori eftir að hafa verið hjá rakaranum sínum.
Í morgun var svona samverustund hjá mér og rakaranum sem klippir mig þessi árin. Það besta við hann er að hann er rakari af Guðs náð. Skilar manni flottum, vel klipptum, blásnum og lökkuðum. Til viðbótar, þá verður maður að panta tíma hjá honum. Aðrir fá ekki klippingu. Undir lokin var hann farin að tala um orð. En hluti af hæfni þessa ágæta rakara er einmitt að finna út hvaða umræðuefni viðskiptavinurinn hefur áhuga á og fá hann til að leysa frá skjóðunni.
Hann sagði: „Há. Merkilegt orð há. Hvað finnst þér um það?” „Bændur tala um að slá há,” svaraði ég. „Já, en af hverju ætli það sé dregið?” spurði hann. „Það er nú það,” sagði ég og gataði. „Það væri gaman að vita eitthvað um það,” sagði hann. „Já, ég skal fletta því upp og ræða það næst þegar ég kem,” svaraði ég. „Þú gætir líka sagt eitthvað um það á heimasíðunni þinni,” endaði hann samtalið og tók af mér lakið og sagði „Gjörðu svo vel..”
Í Íslenskri orðsifjabók eru hvorki meira né minna en 14 skýringar á orðinu há. Okkar viðfangsefni var gras. Um það segir: „Gras sem vex eftir seinni slátt á túni, (samanber hógvur í færeysku- hå í nýnorsku – hå og håv á sænskri mállýsku,” og svo framvegis. Þessu geta auðvitað allir áhugamenn flett upp og svalað fróðleiksfýsn sinni. En eftirfarandi örsögu geta ekki allir flett upp.
Tveir indíánar, langt norður í Kanada, voru á eintrjáningi úti á gríðarlega stóru vatni að veiða. Sátu þeir þöglir allan daginn eins og indíána er siður. Renndu þeir færum sínum hvor við sitt borð. Eftir margra klukkustunda bið, án orða og samræðna, verður annar þeirra var. Hann dregur færið inn og á því var hafmeyja. Indíáninn skoðar hafmeyjuna hátt og lágt. Sleppir henni síðan aftur í vatnið. Þá spyr sá fyrri: „Why?” Hinn svaraði: „How?”