Á Grímsstaðaholtinu í gamla daga bjó að stærstum hluta venjulegt fólk. Þegar ég segi gamla daga þá á ég við árin fyrir miðja síðustu öld. Með orðinu venjulegt fólk á ég við óbreyttar manneskjur, alþýðufólk sem vann við venjuleg störf og barðist í bökkum við að komast af. Við Þrastargötuna, en á Holtinu báru svo til allar götur fuglanöfn, bjuggu í einu húsinu hjón sem nutu sérstakrar virðingar foreldra minna, en það voru þau Helga þvottakona og Sigurður maður hennar, sem var smiður. Muni ég það rétt.