Við erum í sumarfríi, ég og spúsa mín. Smíðum alla daga í Litlatré. Vinnum persónulegan sigur á hverjum degi. Höfum klætt húsið utan, borið fyrstu umferð af fúavörn á klæðinguna, neglt upp undir þakskegg og málað gluggakarma. Ásta er snillingur með mjóu línurnar. Og við höfum gjarnan sagt í dagslok, eins og Guð almáttugur sagði forðum þegar hann leit yfir vikudjobbið: „Og sjá, það var harla gott.”
Það var harla gott þrátt fyrir galla og misfellur. Ekki síst í mannkyninu. Þar sýnist manni margt hafi farið eins og hjá bílaframleiðendum með mánudagsbílana. En auðvitað er lífið þannig. Í mörgum tilfellum harla gott, sennilega aldrei algott. Sem betur fer. Prófessor Þórir Kr. Prédikaði eitt sinn í Samhjálp á dögum okkar Ástu þar. Sagði hann meðal annars að auðvitað væri enginn maður fullkominn og ef einn slíkur fyndist í veröldinni þá hlyti hann að vera meira og minna klikkaður.
Við Ásta lærðum margt í fríinu okkar. Meðal annars það að ef við ökum aldrei hraðar en á níutíu, þá eyðir bíllinn 15% minna bensíni. Og þegar við ókum til Reykjavíkur einn daginn, á 70 til 80, þá mátti engu muna að það hækkaði í tankinum. Í alvöru talað, þá spöruðum við ríflega fyrir öllum bensínhækkunum undanfarna mánuði. Raunar sýndist okkur fleiri hafa fundið þetta út. Umferðin var svo þroskuð í hraðavali.
Nýja bókin, Engill tímans, sem gefin var út í minningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar, um mánaðamótin síðustu er afar skemmtileg bók. Ég hef verið að glugga í hana á kvöldin, í sveitinni. Hún inniheldur greinar eftir 35 höfunda. Þar eru allskonar greinar eftir allskonar fólk sem fæst við ýmiskonar texta. Guðni Elísson skrifar eina þeirra, grein um Píslarsögu Krists eftir Mel Gibson. Hann vitnar í greinar og erindi ótrúlegs fjölda Íslendinga sem sáu myndina og tjáðu sig um hana eins og heimssögulegan atburð. Það vekur furðu hve margir vildu sjá kvölina og misþyrminguna, angistina og blóðið. Minnir óneitanlega á „allt fólkið, sem komið hafði saman til að sjá þetta,” eins og ritningin segir frá um krossfestinguna.
Á öðrum stað í bókinni er grein eftir Svein Yngva Egilsson. Hún heitir Tilbrigði við skógarhljóð. Sveinn skrifar um Martin Heiddegger, þýskan heimspeking sem „oftlega benti á að maðurinn er málskepna, talandi vera,…” …sem alltaf býr í málinu.” Það vekur mann til umhugsunar að lesa slíkar hugleiðingar. Ákaflega ánægjulegt. Og þannig er um fleiri greinar í bókinni. Nefni þessi dæmi tvö til að vekja forvitni og hvetja vini til að lesa bókina.
Tilefni pistilsins var annars að segja frá reynslu við innkaup á Kjörvara. Í Borgarnesi.. Tvær fötur fjögurra lítra. Reyni að koma því frá mér næst.