Það hefur verið mikið að gera hjá okkur Ástu síðustu helgar. Við höfum verið upptekin við að smíða lítið hús uppi í Borgarfirði. Vegna vanefna höfum við orðið að spara iðnaðarmenn til þess að hafa von um að kofatetrinu ljúki. Hann var reyndar svo ósvífinn sá sem teiknaði rafmagnið í kofann að kalla hann „skúrinn.” Ekki var reikningurinn frá honum í hlutfalli við það.
Af þessum sökum hefur lítill tími gefist til lesturs og andlegrar iðkunnar. Harðsperrur og strengir ýmiskonar talað sínu máli um. Sagði hárskeranum mínum frá harðsperrunum fyrir skömmu. Hann hafði spurt hvernig gengi að byggja. „Harðsperrur,” sagði hárskerinn, „eru þær ekki dásamlegar, vitna þær ekki um að maður er lifandi og getur verið þátttakandi í amstrinu?” „Jú, auðvitað,” sagði ég, „Guði sé lof fyrir harðsperrurnar.”
Þjáningum lærvöðvanna mátti líkja við það þegar byrjað var að smala í sveitinni í gamla daga. Maður var á hestbaki heilu dagana. Fyrsta kvöldið gekk maður um hjólbeinóttur og stundi í hverju skrefi. Morguninn eftir var maður helmingi verri. Samt urðu allir að fara á hestbak aftur og enginn tók tillit til harðsperranna. Á fjórða degi var þetta liðið hjá. Og fólk til í hvað sem var. Þetta verður vonandi eins í byggingarvinnunni. Þótt fimmtíu árum muni.
Veðurblíðan hefur annars verið með eindæmum. Fregnir bárust af bændum sem hófu slátt um mánaðamótin maí júní. Það hefði engin trúað Gvendi dúllara hefði hann sagt slíkar fregnir á ferðum sínum um sveitir. Og menn ljúka slætti á viku eða tveim. Las í blaði eldri borgara viðtal við merkan bónda í Hvítársíðu að svo væru búhættir breyttir að tæpast væri þörf fyrir heimabörnin til vinnu. Hvað þá aðkomin. Og því fækkar þeim sem harðsperrur upplifa.
Það eru forréttindi að hafa aðgang að afdrepi fyrir utan dagsins önn og borgarys. Að geta nálgast blessaða móður jörð og gengið berfættur í döggvotu grasi. Og andað djúpt. Og teigað ilminn. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, stórkostlega skáld orðar þetta svo yndislega í ljóði sínu „Nú sefur jörðin.” Ljóðinu er skipti í þrjá hluta. Sá fyrsti hefst á þessum orðum:
Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn,
og dregur andann djúpt og rótt
um draumafagra júlínótt.
Annar hlutinn hefst á þessum orðum:
Nú sefur allt svo vel og vært,
Sem var í dagsins stríði sært,
og jafnvel blóm með brunasár.-
Þau brosa í svefni gegnum tár.