Orðalag getur verið vandmeðfarið. Þannig hefur það ólíka þýðingu í mismunandi hópum fólks. Þannig er til dæmis með skugga. Á Íslandi er skuggi stundum neikvætt hugtak. Lýsir svæði eða stað þar sem birtan nær ekki til. Sólar nýtur ekki. Þar er og minni hlýja. Menn færa sig því úr skugganum þangað sem sólin skín. Í heitu landi er skugginn hlíf fyrir sólarhitanum. Menn færa sig inn í skuggann til að flýja hitann.
Þetta á einnig við um andleg efni. Menn leita hvíldar undan áreiti og baráttu hversdagsins. Reyna að komast í skjól. Þeir eru lánsamir sem hafa aðgang að einhverskonar skjóli. Geta leitað þangað. Beðið eftir sálinni og síðan hafið brauðstritið að nýju. Hvíldir og efldir. Við Ásta erum lánsöm. Dvöldum í skugga Litlatrés yfir hvítasunnuna. Það voru dýrlegir dagar. Guð yfir og allt um kring.
Myndin sýnir Litlatré í auðninni og Ok í baksýn
Við litum til baka. Það eru fjörutíu ár síðan andi hvítasunnunnar leitaði okkur uppi. Og blés í brjóst okkar. Við erum svo þakklát fyrir verk hans. Skiljum að hann er og starfar. Vandinn felst í leiðbeiningunni. Við vorum svo lánsöm að í veg okkar voru sendir menn, líkt og Filippus í Postulasögunni átta, sem höfðu fengið það verkefni að leiðbeina okkur um mjóa stíga ritninganna. Fyrst og fremst voru þetta tveir menn. Tveir. Þeir höfðu hvor sitt aðalhlutverk.
Góðir vinir í heimsókn
Við litum til baka. Lotningarfullir lærisveinar þeirra. Þakklát. Guðni Markússon í Kirkjulækjarkoti opnaði leiðina með útbreiddum faðmi mannelsku og kærleika. Síðan kom Sigurmundur Einarsson og sá um leiðbeininguna. Hann var eins og rykið. Barst ekki á. Hann var eins og hlutgervingur hógværðar og lítillætis. Kunni ritningarnar utan að. Lét þær ávallt sjálfar gefa svörin. Á hraðbergi. Í tveggja manna tali. Mildur og víkjandi.
Við litum til baka. Þakklát í fátæklegum hjörtum okkar. Eigum lífið að þakka andanum sem umbreytti þessum lærimeisturum tveim. Andanum sem umbreytti einnig lífi okkar. Við ræddum þessi mál og gróðursettum ungar aspir og birki. Væntanlega vaxa þær og veita skjól sem einhverjir geta sótt sér næði og hvíld til. Og hugleitt undur himinsins.