Sagan endurtekur sig. Grófur og ruddalegur talsmáti flettir ofan af mönnum og sýnir inn í hugarfylgsni þeirra. Jafnvel manna sem maður hafði tilhneigingu til bera nokkra virðingu fyrir. Þannig hefur þetta verið alla mína ævi. Sorglegast er að sjá sömu framkomu á hinu háa alþingi Íslendinga og maður sér á meðal ræktunarlítilla utangarðsmanna sem stundum tjá sig með því að hrækja á náungann.
Gaspur og illyrði eru ekki siðir vandaðra manna. Ósjálfrátt hættir maður að taka mark á þeim sem tjá sig á þann hátt. Og reynir að sneiða hjá þeim. Máltækið segir og að það „bylji mest í tómri tunnu.“ Það er dapurlegt að sjá söguna endurtaka sig. Sjá trompeta stjórnmálaflokka geysast agalaust inn á heimili landsmanna, í gegnum ljósvakamiðla, og ausa remmunni yfir þau.
Minnumst orðanna: „Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“