Máttur himins og jarðar

Sú saga gekk fyrir ótal árum að bónda nokkrum hafi verið sagt frá því að hægt væri að sá síldarhrognum í valinn jarðveg og upp mundi koma margföld uppskera. Fylgdi sögunni að bóndinn hafi plægt og herfað dálítið svæði ofan við bæinn sinn og búið til sáningar á hrognum. Flestum þótti sagan fyndin og bóndinn einfaldur. En um haustið brá svo við að garður bóndans var þakinn grönnum greinum sem stóðu upp úr jörðinni og á hverri grein voru tvær til þrjár síldar sem glitruðu í sólarljósinu. Bóndinn hafði þá leikið á nágrannana.

Minnug þessarar sögu ákváðum við Ásta að reyna á náttúru jarðar og mátt himnanna. Keyptum við nokkuð af steinsteypu og gerðum holur í jörðina á skikanum okkar, Litla tré. Í holurnar settum við hólka og í hólkana steinsteypuna og báðum Guð um að gefa vöxt. Höfum við verið ákaflega spennt í allt vor að fylgjast með þróun mála.

Hólkar

Það var svo snemma í apríl sem fyrsti árangurinn fór að koma í ljós. Upp úr steypuhólkunum tók að vaxa allskyns timbur og taka á sig snið. Höfum við nú farið vikulega og hugað að framvindunni sem svo sannarlega hefur komið okkur á óvart.

Uppskera

Hugsum við okkur nú gott til glóðarinnar og væntum uppskeru sem gagnast muni okkur um langt árabil. Bjartsýn á það gerum við margskonar áætlanir um viðveru og ræktun á litla skikanum okkar, sem við köllum Litla tré. Birtum við þessar myndir til að sýna fram á að náttúra jarðar og máttur himnanna eru magnaðri en margan grunar.

Uppskera

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.