Blöðin í morgun og undanfarna daga hafa eytt talsverðu rými undir efni um Gibson kvikmyndina Píslarsögu Krists. Í ljós kemur að margir voru kallaðir saman til að vera viðstaddir forsýningu á myndinni. Væntanlega hefur þeim verið boðið í þeirri von að mikil umræða hæfist og í framhaldi af henni mikil aðsókn sem tryggði góðan hagnað. Þá er og ljóst að viðbrögð og skoðun þeirra er myndina sáu eru afar mismunandi. Að vonum.
Myndina hef ég ekki séð og veit ekki hvort ég geri það. Efnið sem hún fjallar um er í huga mínum og hjarta háheilagt. Hefur líf mitt í fjörutíu ár meira og minna sótt lífsfró til atburðanna sem náðu hámarki á Golagata fyrir um tvö þúsund árum. Atburðum sem spámaðurinn Jesaja sá fyrir og lærisveinninn Jóhannes greinir frá. Ekki hafa margir samtíðamenn, fræðimenn né aðrir, fjallað um þá atburði á þann veg að veki amen í hjarta mínu. Því miður.
Af lesningu um skoðanir manna á myndinni leggst það einhvern veginn í mig að þeir sem eru hvað hrifnastir af henni séu náungar sem ég hef ekki átt auðvelt með að deila skoðunum á trúarlegum efnum með. Í hinum flokknum gæti leynst einn og einn sem komið hefur auga á kjarnann sem birtist í bæn og ákalli Manasse konungs: „Nú beygi ég hjartans kné og bið þig um náð.”
Menn ættu að ræða þjáningar Krists með aðgát. Ekki hvað síst þeir sem útvalið hafa sjálfa sig til að þjóna Orði Guðs. Og holt er að minnast orða kínverska spekingsins sem sagði: „Sá vegur sem hægt er að kappræða um er ekki vegurinn.”