Íslendingar tala oft um skammdegi, dimmuna á haustin og langar vetrarnætur. Síðan um hækkandi sól og lengingu dags um „hænufet á dag”. Þeir verða harla glaðlegir þegar birtan ræður lengri tíma sólarhringsins. Og víst er það allt saman gott og blessað. Skáldið Stefán frá Hvítadal orti um vorkomuna: „Nú finn ég vorsins heiði í hjarta. / Horfin, dáin nóttin svarta. / Ótal drauma blíða, bjarta / barstu, vorsól, inn til mín. / Það er engin þörf að kvarta, / þegar blessuð sólin skín.“
En á öðrum sviðum mannlegs lífs, þess hins andlega, fer ljós og myrkur ekki endilega eftir dagatali. Margir einstaklingar, menn af báðum kynjum, búa við myrkur í hjarta og sinni þótt sólin skíni í heiði. Fregnir berast á þessum vikum um váleg örlög fólks sem nóttin yfirbugaði og máttur myrkursins tók yfir. Máttur sem hefði ekki þurft að fá frjálsar hendur.
„En þetta er yðar tími og máttur myrkranna,” sagði meistarinn frá Nasaret, þegar valdsmennirnir komu til að taka hann fastan. Hann talaði um máttinn í myrkrinu, máttinn sem hataði ljósið. Aftur og aftur kemur fram í upplýsingu hans að svið sálarlífsins eru í grundvallaratriðum tvö, ljós og myrkur. „Og myrkrið tók ekki á móti ljósinu.” Það eru hræðileg örlög, hvers sem þau hlýtur, þegar máttur myrkursins tekur yfir stjórn hugans og knýr fram vilja sinn.
„Þá var nótt,” segir ritningin í frásögunni af Júdasi, en myrkrið í huga hans hafði tekið völdin af honum. Myrkrið í huga hans. Það er nefnilega merkilegt fyrirbæri þessi HUGUR. Allt veltur á því hvað í hann er sett. Menn eiga þar val.