Bestu óskir um gleðilegt ár eru færðar öllum þeim sem heimsækja þessa heimasíðu. Þá er og við hæfi að þakka fyrir liðið ár. Vona að það hafi verið flestum fremur ljúflegt og að þetta nýja ár verði það einnig. Vissulega er það þannig að fólk reynir að gera sér glaðan dag yfir jól og áramót. Ekki tekst þó öllum að ýta hugarangri og kvíða frá döprum hjörtum sínum. Þannig er nú lífið einu sinni. Gildir það bæði um hreysi og höll.
Ritningin, Heilög ritning, og sérstaklega guðspjöllin fjögur, boðar þó, áköf og uppörvandi, nýja tíma til handa þeim sem vilja sækja til hennar afl. Jólahátíðin minnir á fæðingu hins mesta meistara. Meistara sem sendur var til að boða lausn, sýn og frelsi. Meistara sem kenndi og talaði svo að undrun vakti: „…því að vald fylgdi orðum hans.” Ekki virðist það vald hafa falist í hrópum eða belgjandi fasi.
Spámaðurinn skrifar: „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! – segir Drottinn allsherjar.” Hvaða andi er það, spyr einhver? Það er andi spekinnar sem er „andgustur Guðs máttar.” Og meistarinn segir við konuna: „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.” „Faðirinn leitar slíkra.” Í sálmi segir ennfremur: „Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta…”
Hverjir finna þann veg? Um það sagði meistarinn í ræðunni á fjallinu: „Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.” Fáir finna hann. En hann skilur ekki þar við fólk. Hann leiðbeinir og vísar áleiðis: „En þegar þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.” (Mt.6).
Gleðilegt nýtt ár.