Konan sveiflaði höndunum og talaði af miklum fjálgleik. Á fasi hennar orðaforða og framsetningu var augljóst að hún var ofurviss um að allt væri rétt sem hún sagði. Doktorsgráða hennar úr Háskólanum hafði verið tíunduð vel í upphafi. Lagði hún megin áherslu á menntun og gildi menntunar. Tók hún dæmi til að lýsa viðhorfi sínu.
Kjarni viðhorfs hennar var nokkurn veginn svona: Mikið þætti mér meira varið í að dóttir mín tæki háskólapróf fremur en til dæmis meirapróf bílstjóra. Var á henni að heyra að þetta segði hún ekki eingöngu fyrir dóttur sína, heldur fyrir allt fólk. Og flutu orðin fram í oflæti og sjálfsánægju. En hver á þá að keyra vörubílinn og hver á að skera fiskinn?
Minnist byggingavinnu á Grænlandi fyrir margt löngu. Byggja skyldi fjórar íbúðarblokkir. Í vinnuhópnum voru menn úr hverju því fagi sem til þurfti. Samið var um sameiginlegt akkorð. Það er, að allir sem að vinnunni komu skyldu fá sömu laun. Þetta leit vel út. Nú lögðust allir á eitt um að afkasta sem mestu á sem stystum tíma.
Svo var það einn daginn að babb kom í bátinn. Trésmiðir komust að því að þeir ættu að hafa meiri laun en óbreyttir, til dæmis járnabindingamenn eða steypugerðarmenn. Voru rökin fyrir þessu þau að smiðirnir hefðu eytt löngum tíma í nám sem hinir hefðu ekki gert. Varð úr þessu allnokkur umræða og súrnandi magavessar.
Járnabindingamennirnir lögðu þá til að þeir færu sér hægar. Við það kom upp sú staða að smiðirnir þurftu stundum að bíða til að komast að. Þannig var um fleiri verkliði. Þetta þótti smiðunum ómögulegt og komst sá skilningur á að í vinnuhópnum væru allir jafn þýðingarmiklir. Allir hefðu sama gildi fyrir heildarútkomuna. Og á það var sæst. Allir fengu sömu laun. Starfsandinn og afköstin fóru langt fram úr áætlunum.