Í rauninni ætti ég að reisa Guði altari á dögum eins og þessum. Og kannski má hugsa sér að pistillinn sé það altari. Þau voru ekki öll úr harðviði altörin í gegnum tíðina, þessi sem menn hlóðu úr nærtæku efni, hvar sem þeir voru staddir, til þess að úthella hjarta sínu og lofa Drottinn eða rífa klæði sín og barma sér og harma. Mér fer líkt og Davíð ben Ísaí sem orti: „Hver er sem Drottinn Guð vor?” (Sálmur 113)
Áður en lengra er haldið þarf ég að koma því frá mér að ég veðjaði alltaf á Botnleðju. Sýnist á öllu að hún hefði náð mun lengra. En það er ekki málið. Málið er að við Ásta höfum átt svo góðan dag og daga. Og kannski verður einhverjum á að spyrja hvernig sá dagur sé í laginu sem eldri borgarar kalla góðan. Ásta er auðvitað engin eldri borgari, kornung konan og alltaf jafn fríð og falleg. Ég aftur á móti hef veifað skírteininu mínu í sex ár og fengið allskonar afslátt út á það!
Það sem var gott við daginn var að við gengum á fell í grennd við borgina. Og komumst alla leið án þess að fá hjartaáfall. Og uppi á toppnum sjússuðum við okkur úr vatnsflöskum. Þetta er nefnilega þannig að fyrir fimm árum gengum við á þetta sama fell, með honum Týrusi okkar, allt upp í fjórum sinnum í viku. Týrus var mikill vildarvinur okkar. Við minnumst hans helst ekki án þess að klökkna.
Það er merkilegt að heyra að Ísraelsmenn fyrirlitu hunda. En því skyldu þeir ekki gera það úr því að þeir fyrirlíta mennina nágranna sína eins og dæmin sanna. Við Ásta unnum Týrusi. Hann fékk nafnið sitt úr Biblíunni, af borginni Týrus, þaðan sem hin kynþokkafulla og grimma drottning Jesebel var ættuð. Þegar veldi hennar var brotið á bak aftur var henni kastað fram af hallarmúrunum.
Þar sem hún var konungsdóttir voru menn sendir til að jarða hana: „Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur.” (2.Kon.9:30-37) Hitt höfðu hundarnir etið. Frankie Laine söng lag um hana sem varð frægt á miðri síðustu öld. Textinn hófst svona: „If ever a devil is born, without a pair of horn, it was you, Jesebel, it was you.” Auðvitað muna allir eftir Frankie Laine.!!!
En efnið var að fagna yfir góðum degi. Við trúðum því aldrei, fátæku drengirnir á Grímstaðaholtinu að þeir tímar kæmu sem við gætum sagt um að þeir væru góðir. Og okkur Ástu sýndist ekki oft, þegar við vorum að basla með börnin okkar að við mundum sjá út úr baslinu. Hvaða bálka af loforðum sem ríkisstjórnir sömdu.
En það er að sjálfsögðu Guð sem er í verki með okkur. Við skiljum það þannig. Og getum ekki orða bundist. Verðum að deila því með öðrum.