Við fórum snemma á fætur morguninn eftir kosningadaginn, eins og vant er, við Ásta. Þeim gekk illa að ljúka talningu í sumum kjördæmum og Ingibjörg Sólrún féll ekki út fyrr en við vorum komin út í bíl. Við vorum á leið í göngu eftir morgunkaffið. Það kom mér ekki á óvart að Ingibjörg féll út. Fylkingin hennar hefði átt að segja okkur verkafólkinu hvað það væri sem þau gætu gert betur en ríkjandi stjórn.
En ekki að eyða öllum kröftunum í að úthúða þeim. Kannski vissu þau ekki hvað þau ætluðu að gera öðruvísi. Né hvernig. Og kjósendur vantaði ekki endilega nýtt fólk til að gera það sama og hinir höfðu gert. Mér er minnisstætt atvik frá árum „Hræðslubandalagsins” sem vinstri menn stofnuðu á miðri síðustu öld. Þá geystust þeir fram undir hástemmdu slagorði um „Ísland úr Nató, herinn burt.”
Á meðan það gekk yfir var forkólfur þeirra vestur í Ameríku að semja við bandaríkjamenn um áframhaldandi veru hersins í landinu. Og við verkamennirnir hér heima komust þannig að orði að það væri „sama rassgatið undir þessu öllu” þegar kæmi að því að standa við stóru orðin. Eitthvað virðist manni tíðarandinn svipaður í dag.
Það var stafalogn við Vífilsstaðavatn. Mikið af fugli og söngur þeirra í loftinu. Álftir, gæsir og endur úti á vatninu. Nokkrir veiðimenn í vöðlum úti í vatninu. Óðu langt út og voru kúnstugir í laginu og héldu stöngunum hátt. Skógarþrestir, maríuerlur og sólskríkjur í móanum og skutust yfir göngustíginn rétt við fætur okkar á fullu við að byggja aðstöðu fyrir afkomendur sína. Það var svo vinalegt og létti á lóuþrælslunganu.
Kosningarnar gleymdust þangað til við hittum frænda Ástu sem var á leið upp í Heiðmörk, gangandi, með kúnstugan hatt á hausnum. Gæti hafa fengið hattinn í arf. Spjölluðum smávegis. Pólitík. Hvað um það. Morguninn og gangan voru afar geðbætandi og dagurinn hinn besti í hvívetna og kostnaðarlítill, sem ekki veitir af, því að lágu launin okkar mega auðvitað ekki hækka mikið. Þá færi allt úr böndunum eins og ætíð áður.