Þýðingarmiklir dagar fara í hönd. Það er að segja, fyrir þá sem taka trúna á Krist alvarlega. Vikan fyrir páska. Gjarnan nefnd hljóðavika eða dymbilvika. Sem þýðir að þau sem helga huga sinn fyllast kyrrlátri lotningu. Það er með ógn í hjarta sem maður les um þessa daga í ritningunum. Fylgist með því hvernig þessi undraverði Kristur heldur ótrauður í átt til krossins sem hann vissi, allt frá því að hann glímdi í eyðimörkinni, að var hlutskipti hans.
Fræull
Veðurhryðjurnar í morgun, árla, hvolfdust yfir byggðina hérna við snjólínu og tilveruna við horngluggann. Nærliggjandi húsaraðir hurfu í vatnsmestu gusunum. Stormurinn bókstaflega slengdi regninu sem þeyttist umhverfis blokkina. Kom úr suðaustri. Byggingarkranarnir á nærliggjandi svæði lensuðu máttvana. Fátt fólk var utanbíla.
Bragðlítið kaffi
„It is sundaymorning and it is rain.” Þannig kynnti þulurinn fyrsta atriði sunnudagsins á New Port News hátíðinni fyrir um fjörutíu árum síðan. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn til að hlusta. Mahalia Jackson gekk fram á sviðið, ábúðarmikil og full af orku, og söng lagið Rain. Á eftir fylgdi röð trúarlaga sem einmitt voru hennar einkenni og blessuðu hjörtu miljóna hlustenda um víða veröld, árum saman.
Vitsmunir og viska
Stundum heyrist af mönnum sem búa yfir meiri visku en almennt gerist. Orðið viska hefur þó, eins og flest önnur orð, fleiri en eina merkingu og fer það gjarnan eftir málsvæði eða fagi eða einhverjum ramma sem orðin eru notuð innan. Við lestur trúarbóka, speki og eða viskurita, fá þessi orð um visku og speki gjarnan aðra merkingu en þau hafa í daglegu tali.
Óvenjulegt æðruleysi
Ljóðabækurnar hans Björns Sigurbjörnssonar sem ég nefndi um daginn, hafa orðið mér hugleiknari með hverjum deginum. Þær hafa legið á kringlóttu litlu borði við horngluggann og við Ásta gripið þær á milli kaffibolla á morgnanna. Andinn í bókunum er svo óvenjulega æðrulaus og leikur um huga manns á þægilegan og stundum dulmagnaðan hátt.