Grúskaði í áður lesnum bókum mínum á síðustu dögum. Las meðal annars um Þales. Hann var uppi frá 624 f. Kr. til 546 f. Kr. Frásagan af honum vekur alltaf með mér nokkra aðdáun á manninum. Fyrir greind hans og vitsmuni. Sagt er að hann hafi haldið því fram að „allt sé vatn”. Og þannig, segja menn, hófst heimspekin.
„Í sögusögnum um Þales segir að hann hafi ferðast til Egyptalands en það var ekki óalgengt meðal Grikkja á þeim tíma. Þar segir að Þales hafi verið beðinn að mæla hæð pýramída og að hann hafi mælt lengd skuggans af pýramídanum á þeim tíma dags þegar Þales sá að skuggi hans sjálfs var jafnlangur honum sjálfum.” (Heimspekisaga, Skirbekk og Gilje)
Þá segir að með Þalesi hafi maðurinn, í fyrsta sinn, tekið skrefið frá„mythos til logos”, frá goðsögn til rökhugsunar og tekið að leita rökréttra skýringa á dýpsta eðli veruleikans handan við það sem virðist við fyrstu sýn. Og „enginn kimi alheimsins er svo dimmur að skilningur mannsins nái ekki að lýsa hann upp. Hvergi er pláss fyrir óskiljanlega Guði eða anda.”
Við slíkar vangaveltur má vekja spurningar. Hvað einfeldningum er tamt. Ef enginn kimi alheimsins er svo dimmur að skilningur mannsins nái ekki að lýsa hann upp, af hverju þarf þá að afgreiða óskiljanlegan Guð með þeirri einföldu lausn að hann sé ekki til? Gat það verið af því að kimi Guðs sé svo bjartur að mönnum byrgist sýn? Eða hverskonar Guð væri hann ef mennirnir í smæð sinni gætu mælt hann við skugga sinn?