Með hliðsjón af trú minni, sem er huglæg iðkun um sannleika og mannelsku Guðs, hef ég reynt í mörg ár að láta ekki pólitíska umræðu hafa áhrif á daglega tilveru mína. Geri mér þó fulla grein fyrir því að pólitík snýst um fjármagn þjóða, vald yfir því og meðferð. En vald er eitthvað sem fer illa með flest fólk og getur orðið að fíkn og vitað er að fíknir umbreyta fólki í fíkla.
Maðurinn og skugginn
Grúskaði í áður lesnum bókum mínum á síðustu dögum. Las meðal annars um Þales. Hann var uppi frá 624 f. Kr. til 546 f. Kr. Frásagan af honum vekur alltaf með mér nokkra aðdáun á manninum. Fyrir greind hans og vitsmuni. Sagt er að hann hafi haldið því fram að „allt sé vatn”. Og þannig, segja menn, hófst heimspekin.