Það er föstudagsmorgun. Klukkan er liðlega sjö. Kaffitíminn okkar Ástu búinn. Það er kyrrð yfir öllu. Við ræddum um ritninguna. Settum Taize disk í spilarann. Lofum Drottin. Ræddum krossfestingu Krists. Þýðingu hennar fyrir alla menn. Sektarfórn. Sem gefur mönnum kost á fyrirgefningu. Fyrirgefningu! Allir þarfnast fyrirgefningar. Sáttar við Guð. Sem fæst aðeins við krossins helga tré.
Davíð Stefánsson orti:
Í gegnum móðu og mistur / ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur, / með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa, / en dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa / og kyssa sporin þín.
Í Morgunblaðinu í gær eru nærri fjórar heilsíður undir auglýsingum um dagskrá í kirkjum landsins. Í þeim öllum er auglýst messa á föstudaginn langa. Þessum degi hinnar mestu alvöru kristinnar trúar. En ég kom ekki auga á auglýsingu frá söfnuðinum sem ég hef verið meðlimur í í hartnær fjörutíu ár. Lærði svo á netinu að þar er ekki samkoma á föstudaginn langa.
Rifjaði upp viðtal sem ég átti við prófessor Þóri Kr. Þórðarson árið 1992. Þar segir hann: „Mér detta í hug Meþódistarnir í Ameríku á síðustu öld. Þeir voru kirkjudeild fátæks fólks á átjándu öldinni. Nú er þetta kirkjudeild sem státar af nýjustu hattatískunni, til dæmis, vegna þess að meðlimirnir hafa hækkað í þjóðfélagsstiganum eða tekjum.
Þeir voru áður lágstéttarfólk en eru núna miðstétt. Þetta er auðvitað bara þróun lífsins, en með henni breyttist allt eðli Meþódistakirkjunnar. Heimili meðlimanna eru ekki lengur mótuð af árvekni og anda frumherjanna. Og þau markmið sem frumherjarnir settu sér geta verið komin út í veður og vind.”
Í huga mínum þakka ég Guði fyrir frumherjana Guðna Markússon og Sigurmund Einarsson sem tóku á móti mér fyrir fjörutíu árum og vísuðu mér veginn að krossi Krists. Á þessum morgni skil ég hvað leiðbeining þeirra var háheilög og helguð þeim Drottni sem lét lífið í angist og kvöl til þess að græða sundurkramin hjörtu og sundurmarinn anda.