Öll borgin í uppnámi

Þýðingarmiklir dagar fara í hönd. Það er að segja, fyrir þá sem taka trúna á Krist alvarlega. Vikan fyrir páska. Gjarnan nefnd hljóðavika eða dymbilvika. Sem þýðir að þau sem helga huga sinn fyllast kyrrlátri lotningu. Það er með ógn í hjarta sem maður les um þessa daga í ritningunum. Fylgist með því hvernig þessi undraverði Kristur heldur ótrauður í átt til krossins sem hann vissi, allt frá því að hann glímdi í eyðimörkinni, að var hlutskipti hans.

Í fleiri hundruð ár hafði þjóðin komið saman í höfuðborginni til að halda minningarhátíð um þá miklu atburði þegar hún komst undan ánauð egypta. Árum saman hafði hún verið þjáð og kúguð og arðrænd vægðarlaust og árum saman hafði hún andvarpað og kveinað til Guðs sem hún trúði á og „ánauðarkvein hennar sté upp til Guðs,” segir bókin.

Þetta árið, eins og öll hin fyrri, dreif fólkið að frá öllum byggðum landsins. Margir voru langt að komnir. Mikil stemning fylgdi þessum dögum. Gleði og fögnuður. Og fólkinu fjölgaði með hverjum degi. Nú var hvíldardagurinn liðinn, laugardagur, en fyrsti dagur nýrrar viku tekinn við. Sunnudagur. Og það styttist til hátíðarinnar. Og enn fjölgaði fólkinu.

Jesús kom til Jerúsalem þennan dag og voru margir forvitnir að sjá hann og heyra. Miklar sögur fóru af honum, orðum hans og athöfnum. Enda „breiddu fjölmargir klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði með miklum fagnaðarlátum og varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu „Hver er hann?” Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret.”

Spámaðurinn. Orðið vekur ekki mikil viðbrögð í huga nútímamanna. Spámaðurinn. Fornar ólíkindasögur. Eða hvað? Allir menn hafa tvenns konar vitund. Descartes segir „hugur og heimur” þegar hann glímir við að skilgreina tilveruna. Hugur og heimur eða andi og hold. Flestir lifa og hrærast í jarðneskri tilveru og veitist mörgum erfitt nú, á tímum alræðis auðsins, að átta sig á sjálfum sér. Og margir tapa sér, því miður.

Hvað um það. Þessir dagar sem fara í hönd eru heilagir. Þeir gefa eftirsóknarvert tækifæri fyrir fólk til að íhuga. Til að stansa við og skoða inn í sjálft sig og leitast við að skilja erindi Krists og erindi Guðs og hvaða þýðingu það hefur að vita það. Hæsta stig elskunnar birtist á þessum dögum og það mun sérhver maður uppgötva að hún er honum ætluð ef honum tekst að virkja þá vitsmuni sem hann hlaut í tannfé.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.