Óvenjulegt æðruleysi

Ljóðabækurnar hans Björns Sigurbjörnssonar sem ég nefndi um daginn, hafa orðið mér hugleiknari með hverjum deginum. Þær hafa legið á kringlóttu litlu borði við horngluggann og við Ásta gripið þær á milli kaffibolla á morgnanna. Andinn í bókunum er svo óvenjulega æðrulaus og leikur um huga manns á þægilegan og stundum dulmagnaðan hátt.

Þótt ekki fari mikið fyrir stuðlum, höfuðstöfum og rími, þá ríma mörg ljóðanna samt sem áður við lífsreynslu og viðhorf lesandans. Tregi og sjaldgæft viðhorf til lífsins skína í gegnum mörg ljóðanna eins og til dæmis Ég man, Klukkur og Móðurást. Dagur í september er ljóðið sem varð kveikjan að bókakaupunum.

En elska til lífsins og ljúfar endurminningar hrífa mann með sér. Það er eins og maður greini hér skáld sem er á förum, samanber síðasta ljóðið í seinni bókinni, Út og heim. En hann deilir einnig með lesandanum elskulegri minningu þegar hann segir í Manstu? á bls. 35 í síðari bókinni,

Manstu þegar mjólkurbíllinn kom
og við fórum að sækja póstinn?

Spurningin er auðvitað út í hött.

en ég skal muna það fyrir okkur báða

þegar við fylgdumst að
frá pallinum

ég
með blöð og bréf og brúsa í hjólbörunum
og þú

með dillandi skottið.

Tvær góðar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.