Það er ekki algengt nú til dags að heyra fólk tala um Krist og þjáningar hans. Flest allir eru uppteknir af sínum eigin málum, hvort sem þau eru mikilvæg eða ekki. Svo virðist sem trú og kristindómur sé nútímafólki ekki hátt í sinni utan þessi árlega bylgja af fermingum sem minnir á eitthvað allt annað en Krist og píslargöngu hans. Hér á landi virðist sem peningar eigi að túlka alla hluti, veraldlega og andlega.
En þegar horft er til Krists á lönguföstu og orðin um hann, sem vinir hans skráðu, lesin, kemur í ljós hve markmið hans er ólíkt öllu því sem menn almennt stunda en kalla samt andlegt: „Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig.” Jóh. 13:3-5.
Í bókinni The Beloved Captain segir höfundurinn Donald Hankey frá því hvernig hershöfðinginn bar umhyggju fyrir fótum liðsmanna sinna. Eftir langar göngur herfylkisins lagðist hann á hnén til að skoða verstu sár hermannanna. Ef stinga þurfti á blöðru þá gerði hann það stundum sjálfur. Í bókinni segir: „Það var engin tilgerð í þessu. Líkara var því að hann tæki Krist sér til fyrirmyndar og við virtum hann og elskuðum fyrir það.”
Eftir móður Teresu er eftirfarandi haft: „Látum okkur ekki nægja það eitt að gefa peninga. Peningar eru ekki nóg og þeirra er hægt að afla. Fólkið í kringum okkur þarfnast hjartna okkar til að elska það.”