Það er margslungið mál, þetta með vináttu. Einn morguninn rifjaðist upp fyrir mér hve einlæga vini ég eignaðist ungur maður. Og hvað þeir aftur og aftur yljuðu mér á misgóðum tímum í lífinu. Vinir eins og Róbert, Pílar, Pabló og María, eða Jake, Brett Ashley og Robert Cohn. Aftur og aftur buðu þau mér í veislu til sín. Sem var hluti af lífsnautninni.
Þá má ekki gleyma Friðriki og Katrínu, Macomber hjónunum og öllum hinum, hvar Nick Adams á afar stóran hlut. Þetta voru góðir tímar. Svo liðu mörg ár þar sem ég vanrækti vináttu þessa ágæta fólks. Fann stundum fyrir sjálfsásökun vegna þess. Hafði beint lífsástríðunni að öðrum málefnum. Um langt árabil. Svo gerðist nokkuð í vetur.
Bók sem ég hafði keypt á netinu fyrir nokkrum árum, en aldrei gefið mér tíma til að blaða í, vakti athygli mína óvænt. Ég hafði stansað við efstu hilluna og strokið yfir kjölinn á bókunum sem þar eru þegar þessi hvíta allt í einu minnti á sig. Ég hafði gleymt að ég átti hana. Og reyndi að rifja upp hvernig ég eignaðist hana. Tók hana svo fram og fór um hana höndum. Hún er afar mjúk viðkomu og falleg.
Þessi endurnýjun á kynnum tók stóran hluta úr degi. Margvíslegir tilfinningastraumar fóru í gegn. Vinirnir allir frá fyrri tíð voru þarna. Sögðu hver sína sögu. Vöktu hver sín viðbrögð. Nærvera þeirra var góð. Minningin um vináttutilfinninguna var einnig góð. En það sem þau sögðu er breytt. Og áhrifin af því sem þau sögðu eru líka breytt. Saga þeirra fjallar samt um fólk sem glímir við lífið, glímir við sjálft sig, kosti og galla. En það er gott að eiga þessa vini í farangrinum og minninguna um veisluna sem þeir buðu til.