Menn skiptust í flokka um skoðun á Kristi. Þannig er það einnig í dag. Menn greinir á. Það er ekki nóg með að flokkarnir skiptist í þá sem trúa og hina sem ekki trúa. Sei, sei, nei. Það er líka mikill fjöldi af mismunandi flokkum sem trúa. Og svo deila þeir um kenningar. Það er annars ákaflega merkilegt að velta þessu fyrir sér. Þó ekki af svo miklum ákafa að maður hætti að sjá Krist, þar sem hann í hógværð sinni fylgir heilögum anda sem leitar þeirra sem vilja með hann hafa.
Mér er minnisstætt hvað ég hreifst af frelsaranum þegar ég lærði að þekkja hann. Og hvernig örlítil biblíuvers gátu orðið að stærðarinnar viðburðum. Stundum fannst mér eins og hann stigi út úr bókunum og deildi með mér nærveru sinni. Það voru svo ljúfar stundir. Oftast. Hann átti það líka til að áminna mig. Auðvitað vissi ég að það var andi orða hans sem tekið hafði sér bólstað í huga mínum.
Hvað um það. Á einum stað í Jóhannesarguðspjalli segir: „Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum sem hlýddu á þessi orð: „Þessi er sannarlega spámaðurinn.” Aðrir mæltu: „Hann er Kristur.” En sumir sögðu: „Mundi kristur þá koma frá Galíleu? Hefur ekki ritningin sagt, að kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?” Þannig greindi menn á um hann. Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.
Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: „Hvers vegna komuð þér ekki með hann?” Þjónarnir svöruðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.””
Það voru þessi orð sem heilluðu mig. „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.” Eins fór fyrir mér. Orðin sem skráð eru eftir honum, hugsunin og markmiðið, hittu í hjarta mitt. Undursamlegur kærleikur, skilningur og mannelskandi andi. Allt þetta býr í orðum hans og orð hans búa í ritningunum. Margir hafa skoðun á trúmálum án þess að hafa lesið ritningarnar. Það hef ég aldrei skilið alveg.
Til er frásaga af dálkahöfundi einum. Hann skrifaði: „Vinir mínir hneykslast á mér þegar ég segi þeim að ég hafi lagt þessa eða hina bókina frá mér eftir fáeinar blaðsíður og ekki fundist hún þess verð að vera lesin. En þá hef ég sagt við þá, til að skýra málið, að ef ég tæki mig til og gerði alvöru skurðaðgerð á einhverjum, þá mundi raunverulegur skurðlæknir strax sjá að ég vissi ekkert um skurðlækningar. Sama gildir um ritað mál já og einnig um talað mál. Þeir sem heyrðu Jesúm tala vissu samstundis að hann var meira en venjulegur maður. Það er gott að hugsa um það á lönguföstu.