Rándýrir hanskar

Við horngluggann, í morgun, yfir kaffibollunum litum við í ljóðabækur tvær, litlar en snotrar, eftir Björn Sigurbjörnsson. Þessi við erum við Ásta. Hún hafði látið áhuga sinn fyrir einu ljóðanna í ljós fyrir tveim vikum, þegar hún heyrði á Rás eitt lesið ljóðið 11. september, eftir Björn. Það varð til þess að ég gerði mér erindi niður í Mál og menningu einn daginn til að skoða bókina, sem reyndust vera tvær, og keypti þær og gaf Ástu í afmælisgjöf. Önnur heitir Orð og mál, hin Út og heim.

Í morgun fletti ég Orði og máli. Hún er smekkleg í útliti, dökkgræn og fallega hönnuð. Og las nokkur ljóðanna upphátt. Þau eru slungin. Sum ræddum við. Önnur þögðum við. Til að melta hugblæinn. Ég tek mér bersaleyfi og birti nokkrar agnir:

Mildi.

Mýflugurnar dansa í sólarlaginu
köngulóarvefurinn er eins og skartgripur
himinninn leiftrar í gylltum litum
og vatnið væri eins og spegill
ef svanurinn sigldi ekki um það
konunglegur að sjá.

Einhvern tíma hefði manneskja
lyft huga sínum til himna
og lofað Drottin fyrir þessa dýrð.

En það er búið að segja manni of margt
sýna manni of mikið.

Sólarlagið er svona vegna mengunar
svanurinn er lúsugur…..
…..

og ljóðið endar á eftirfarandi línum:

Þvílík mildi að búa til mýflugur
sem dansa í sólarlaginu
og vita ekkert um köngulær.

Mörg kvæða Björns, hitta mann á þann hátt sem ljóð eiga að gera. Það er ánægjulegt að lesa þau og maður staldrar við. Þannig fór okkur Ástu við lestur lítils ljóðs sem heitir, Á glæ. Það fjallar um rándýra hanska sem höfundurinn fékk í jólagjöf. Örlög þeirra og endar á þessum orðum:

En kannski er þetta ekkert fyndið.

Enda ekki víst að það verði hlegið
þegar við erum búin
að kasta öllum góðu gjöfunum á glæ

og stöndum að lokum uppi
með ruslið eitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.