Staddur inni á rakarastofu fyrr í vetur, hvar ég sat og las í blaði og beið eftir að að mér kæmi, vék sér að mér sá sem rakarinn var að ljúka við að klippa. Hann heilsaði mér blíðlega og þakkaði innilega fyrir grein sem ég hafði skrifað mörgum árum áður, í blað, um Davíðssálm 23. Vinsemd mannsins kom mér á óvart enda er hann þekktur milljarðamæringur í þjóðinni. Viðbrögð mín urðu því fremur klaufsk. „Gerði ég það?” var það eina sem ég gat sagt.
Þessi óvenjulega vinsemd rifjaðist upp fyrir mér á síðustu dögum og leitaði ég þá greinina uppi. Leyfi ég mér að endurbirta innganginn að henni hér, en greinin ber nafnið „Öll þessi vinveittu orð.” Hér á eftir kemur greinin:
„Sum orðasambönd eru vinveittari en önnur. Þau hitta fólk beint í hýbýli hjartans. Í einskonar hjartaborg sem virðist vera hið innra með sérhverjum manni. Það er svo margt sem erfitt er að orða og þegar einhverjum tekst að orða það, þá er eins og öllum þyki það sjálfsagt og einfalt og ekkert til að hrósa sér af. Eitt skáldið orðaði eitt af dulafullu fyrirbærum lífsins þannig að ,,á milli manns og hests og hunds, hangir leyniþráður.” Leyniþráður, hvað þeir einir hafa uppgötvað sem í slíka þrenningu voru ofnir um nokkur skeiðrúm.
Þannig geta sum orðasambönd, frá fyrstu kynnum, orðið hluti af tilveru manna. Þar geta þau orðið hvati, örvun og brýnsla. Tæki til þess að efla lífslöngun, trú og von og kalla fram úr djúpi sálarinnar vissu, sem annars hefur tilhneigingu til að sökkva í ryk og móðu daglegrar umferðar. Einn af þessum gullnu orðaklösum er Davíðssálmur 23. Sálmur sem allir kunna, að minnsta kosti hrafl úr, á svipaðan hátt og allir kunna Faðir vorið eða brot úr því.
Hagleiki sumra versanna í Davíðssálmi 23 er slíkur að hann höfðar til fólks á öllum aldri. Einnig af öllum kynstofnum og öllum kringumstæðum. Meira að segja, í brjóstum norðurhjarabúa sem aldrei hafa þurft að biðja um skugga til að verjast sólinni um hádegi, bregðast ósýnilegu strengirnir glaðlega við þegar orð höfundarins grípa mynd hugsunarinnar um grænar grundir og hvíld á bökkum lygnra straumvatna. Áum hér.”
Áætlað er að birta sálminn og skýringarnar á næstunni.