Mér er Silvía minnisstæð. Hún átti stundum svolítið bágt í sálinni en var ágæt á milli. Þær andlegustu í söfnuðinum sögðu að það væru í henni ýmiskonar andar sem gerðu henni erfitt fyrir. En Sylvía var elskuleg kona. Hafði verið frelsuð um alllangt skeið þegar þetta var. Hún brosti við fólki og auðsýndi vinsemd. En þegar andarnir sóttu að henni kom hún ekki á samkomur um nokkra hríð. Svo kom þessi kraftaverkamaður frá Skotlandi. Það eru um það bil 30 ár síðan.
Þetta var fremur lágvaxinn maður. Grannur og beinn í baki, snaggaralegur, drjúgur með sig og bar hvolpana. Hann var kominn til að hafa raðsamkomur í Fíladelfíu. Neðri sal. Sá efri var ekki komin í gagnið. Einu sinni gekk ég með honum innan af Sundlaugarvegi og niður í kirkju. Ásmundur og Þórhildur bjuggu þá á Sundlaugarveginum. Og maðurinn sagði mér ýmsar hetjusögur af sér.
Meðal annars sagðist hann hafa viðurnefni í heimalandi sínu og víðar þar sem hann kæmi. The Devil destroyer. Hjarta mitt fylltist aðdáun. Væri allt þetta satt sem maðurinn sagði þá voru nú aldeilis betri tímar framundan fyrir fólkið sem átti bágt í sálinni. Og það var einmitt það sem Jesús hafði lagt sig fram um, að lækna þá sem áttu bágt í sálinni. Og ég hlakkaði til kvöldsins.
Það var vel mætt á samkomuna og eftirvænting í loftinu. Og skotinn prédikaði. Af feikna krafti. Með munni, höndum og fótum. Og þegar stemningin var komin á efsta stig tók hann að kalla fram til fyrirbænar. Hann beindi orðum sínum sérstaklega til þeirra sem vondir andar plöguðu. Ýmsir komu fram og stóðu uppi við ræðupúltið. Þar á meðal fólk sem ég hafði haldið að hýsti eingöngu heilaga anda. En hvað veit maður um annað fólk.
Svo þegar hátindur samkomunnar virtist vera um garð genginn og tekið að draga af samkomugestum, stóð Sylvía upp. Hún hafði setið frekar aftarlega, og gekk fram að púltinu. Heilögu konurnar sem vissu af andahópnum í henni andvörpuðu í hálfum hljóðum. Lof og dýrð, sögðu þær. Eftir því sem Sylvía kom nær púltinu hljóðnaði hvískrið í salnum. Litli skotinn gekk á móti henni. Hún var hærri og breiðari en hann.
Svo fór hann að reka andana út af Sylvíu. Hávær og hvellur og hrópaði eins og sá sem valdið hefur. Sylvia fór að gráta. Og sumar konurnar fóru að gráta með henni. Og margir gengu til hennar og óskuðu henni til hamingju og henni fannst svo yndislegt hvað allir voru góðir við sig að hún brosti í gengum tárin. Svo var sunginn lokasálmur og söfnuðurinn sagði amen og fór heim, heillaður af miklum teiknum.
Næsta kvöld kom Sylvía aftur og fór fram og fékk samskonar meðferð. Og næsta kvöld einnig. Og alltaf gat skoski kraftaverkamaðurinn fundið anda sem höfðu orðið eftir í henni. Svo, eftir raðsamkomurnar, fór skoski maðurinn af landi brott og hversdagsleikinn tók við og Sylvía hvíldi sig á samkomusókninni um tíma. En þegar næsti kraftaverkamaður kom til landsins var Sylvía mætt, og þegar þar næsti kom var Sylvía einnig mætt. Og allir læknuðu hana.
Ekki veit ég hve marga kraftaverkamenn ég hef vitað koma til landsins í gegnum árin til að gera kraftaverk og lækna sjúka. Þeir eru margir. Og ég held, satt að segja, að niðurstaðan sé sú að þeir séu fleiri en þeir sem hafa læknast á samkomum hjá þeim.
Og maður veltir því fyrir sér hvort smiðirnir séu ekki að erfiða til einskis.