Það fór nú þannig fyrir mér við lestur kaflans um trúmál í bók Nietzsches, Handan góðs og ills, að ég komst ekki hjá því að skrifa pistil, í gær, um gullnu reglu Biblíunnar. Svona eins og til að jafna mig. Aldrei hef ég lesið eða heyrt annað eins orðalag um kristna trú eins og birtist í bókinni. Aldrei heyrt rætt um hana á jafn neikvæðan hátt. Ætla þó að efnið sé talið vitsmunum vafið af einhverjum hópi manna.
Á sumum blaðsíðunum er gengið svo langt í nækvæðu talinu, að þar gæti alveg eins verið um öfugmæli að ræða. Hvað veit maður svo sem um þessa gaura. En viðhorf Nietzsches til trúmála áttu og eiga sína aðdáendur. Ég minnist manns nokkurs sem kom á samkomu í Samhjálp á árunum okkar Ástu þar. Hann greipst af setningu sem ég sagði um Nietzsche í ræðu og sótti samkomur um árabil eftir það.
Stundum ræddum við málin yfir kaffibolla í samkomulok. Maður þessi var menntaður maður af menntuðu og vel gefnu fólki kominn. Og afar stoltur og stórlátur. En líf hans um þessar mundir var rýrt og fátæklegt. Hann var einmana, vinalaus og óaðlaðandi. Óhreinn og illa til hafður. Ástlaus. En dáði Nietzsche. „ Nietzsche var mikilmenni,” sagði hann. „miklu stærri en aðrir.”
Í Heimspekisögu segir: „Nietzsche segist hafa uppgötvað að siðferði geti verið tvennskonar: Höfðingjasiðferði og þrælasiðferði. Í höfðingjasiðferði táknar „góður” hið sama og „göfugur”, „drenglyndur” eða „veglyndur”. „Slæmur merkir hinsvegar „fyrirlitlegur”. Í þrælasiðferði lýtur mælikvarðinn að því sem er hinum veikbyggðu og „fátæku í anda” í vil.”
Það er ekki hægt að gera hugsunum sínum skil í litlum pistli. En benda má á að ef fólk lítur í kringum sig í nútíðinni á Íslandi og fylgist sæmilega með daglegum straumum, þá verður ekki komist hjá því að sjá að þessi siðferði tvö, sem Nietzsche segist hafa uppgötvað, marka tilveruna á tiltölulega skýran hátt. Má þar nefna, t.d. arðsemi fjármagns annarsvegar, og umræðu um fátækt hinsvegar.
Hvað um það. Saga kynslóðanna segir okkur að langstærstur hluti þeirra milljóna manna, karla og kvenna, sem gist hafa þessa jörð í gegnum tíðina, hafa á miserfiðum tímum komist af eingöngu fyrir uppörvun og hvatningu trúar sinnar. Trúar á Guð sem er ofar góðs og ills.